Uppfært: Starfsemi í eðlilegt horf eftir netárás, rannsókn sérfræðinga í gangi
Í kjölfar netárásar á tölvukerfi Brimborgar skv. tilkynningu frá Brimborg 29.8.2023 þar sem hluti gagna var læstur hefur Brimborg gripið til ýmissa ráðstafanna til að loka á aðgang árásaraaðila til dæmis með lokun á aðgöngum, endurræsingu lykilorða og fleira ásamt því að vinna að rannsókn á umfangi öryggisbrestsins og leitast við að upplýsa hvort og þá hvaða upplýsingar hafi farið út úr fyrirtækinu. Ekki hafa fundist vísbendingar á þessu stigi um að gögn hafi farið úr húsi.
Eftir að öryggi kerfa var tryggt var umsvifalaust hafist handa við að byggja upp kerfin að nýju, koma gögnum af afritum á sinn stað og vinna að auknum netvörnum til skamms- og lengri tíma. Meginkerfi Brimborgar voru opnuð tveimur dögum eftir netárásina og í dag eru nánast öll kerfi virk og starfsemi í megindráttum komin í eðlilegt horf.
Brimborg fékk sérfræðinga á sviði tölvuöryggismála til að rannsaka netárásina og stendur rannsókn ennþá yfir en á þessu stigi hafa ekki fundist vísbendingar um að gögn hafi í raun farið út úr fyrirtækinu og því ekki vísbendingar um að um viðkvæmar persónuupplýsingar sé að ræða í skilningi 3. mgr. 3. gr. laga um persónuvernd.
Persónuvernd og CERT-IS, netöryggissveits íslands, var tilkynnt um atvikið samdægurs.
Í persónuverndarstefnu Brimborgar er greint frá því hvernig félagið stendur að söfnun, skráningu, vinnslu, vistun og miðlun persónugreinanlegra upplýsinga um viðskiptamenn sína og einstaklinga sem eiga í samskiptum við fyrirtækið á einn eða annan hátt t.d. með heimsókn á starfsstöðvar, með öðrum samskiptaleiðum eða með því að heimsækja vefsvæði félagsins og talin eru upp hér að neðan, hvort sem persónuupplýsingarnar eru geymdar rafrænt, á pappír eða með öðrum hætti. Persónuverndarstefnuna má finna hér:
Brimborg harmar að netárásin hafi átt sér stað en ítrekar að unnið sé hörðum höndum að rannsókn málsins og verða upplýsingar birtar hér á fréttavef Brimborgar eftir því sem framvindur.
Nánari upplýsingar um öryggisbrestinn veitir persónuverndarfulltrúi Brimborgar skv. upplýsingum í persónuverndarstefnu félagsins.