Allt um Brimborg
Sagan í ártölum
Upphaf hefst á bílaviðgerðum
1964
Bílaverkstæðið Ventill stofnað af Jóhanni J. Jóhannssyni.
1969
Innflutningur á bílavarahlutum hafinn.
1971
Eigið húsnæði í Ármúla 23 - bílaverkstæði, varahlutaverslun,.
1973
Sala saumavéla hefst.
Sala bíla og atvinnutækja
1977
Sala og dreifing Daihatsu bifreiða frá Japan hefst. Bifreiðaumboðið Brimborg stofnað.
Sala Daihatsu bifreiða hefst 1977.
Sýningarsalur Daihatsu við Ármúla.
1988
Volvo Cars, Volvo Trucks, Volvo Buses, Volvo Penta og Volvo vinnuvéla umboð yfirtekin.
1995
Ford bílaumboðið tekið yfir. Viðskiptasambandi komið á við Ford í Evrópu og Ford í Ameríku.
Ford í nýjum sýningarsal við Bíldshöfða 6. Gísli Jón og Egill með opnunargjafir frá Ford.
Vöxturinn heldur áfram
1996
Þórshamar á Akureyri keyptur og breytt í Brimborg Akureyri.
1999
Brimborg flytur í ný og sérhönnuð 8.000 fermetra húsakynni á Bíldshöfða 6 í Reykjavík.
Hér er Egill Jóhannsson fyrir utan glænýtt húsnæði á Bíldshöfða 6.
2000
Citroën bílaumboðið bætist við starfsemina. MAX1 opnar fyrsta verkstæðið á Breiðhöfða 1.
Fyrsta starfsstöð MAX1 var við Breiðhöfða.
2003
Kjörorð fyrirtækisins "Öruggur staður til að vera á" kynnt til sögunnar og ný gæðastefna mörkuð.
2004
Volvo atvinnutækjasvið eflt og nýtt skipulag innleitt.
2005
Mazda bílaumboðið bætist við starfsemina. Nýtt húsnæði á Bíldshöfða 8 tekið undir starfsemi Mazda og Citroën. MAX1 verkstæðið á Breiðhöfða flytur á Bíldshöfða 5a.
Árið 2005 bætist Mazda við starfsemina.
2006
Nýtt MAX1 verkstæði opnað á Bíldshöfða 8.
2007
MAX1 opnar við Jafnasel 6. Brimborg tekur yfir starfsemi Vélalands á Vagnhöfða 21. Gæðastjórnunarkerfi Brimborgar fær ISO 9001 vottun.
2008
MAX1 opnar verkstæði við Knarrarvog 2. Eitt fullkomnasta upplýsingatæknikerfi fyrir bílgreinina tekið í notkun. Kerfið byggir á Microsoft Dynamics AX og lausn fyrir bílaumboð frá íslenska fyrirtækinu Annata.
Brimborg tekur yfir starfsemi Vélalands 2007.
2009
Samstarf við amerísku bílaleigurnar Dollar Rent A Car og Thrifty Car Rental hefst. Saga Car Rental bætist við starfsemina. Afgreiðslustaðir fyrir bílaleigurnar á fimm stöðum á landinu. Þær ná skjótt sterkri stöðu á ferðamarkaðnum. Nýtt verkstæði MAX1 opnað við Dalshraun í Hafnarfirði.
Rekstur á bílaleigu hefst 2009.
2010
Nýtt verkstæði Vélalands opnað við Dalshraun í Hafnarfirði. Bætist við starfsemi Vélalands við Vagnhöfða í Reykjavík.
2011
Nýtt verkstæði Vélalands opnar í Jafnaseli 6
Brimborg við Faxafen í Reykjavík.
Sókn í kjölfar bankahruns
2013
Í kjölfar bankahrunsins í október 2008 hrundu allir markaðir Brimborgar m.a. bíla- og tækjasala en starfsmönnum fyrirtækisins tókst að laga sig að gjörbreyttum aðstæðum og helmings samdrætti í tekjum með breyttu skipulagi, auknum tekjum á nýjum sviðum, aukinni þjónustu og lækkun kostnaðar.
2014
Brimborg fagnar 50 árum í bílgreininni. Aðgerðir í kjölfar bankahruns hafa styrkt fyrirtækið sem hefur aldrei verið öflugra til að veita framúrskarandi þjónustu og ná aukinni hlutdeild á markaði með samkeppnishæfu verði í harðri samkeppni.
2016
Peugeot, franskur bílaframleiðandi bætist við úrvalið hjá Brimborg
2018
Volvo atvinnutækjasvið Brimborg flutti í nýja og glæsilega þjónustumiðstöð í nóvember árið 2018
2021
Polestar, hágæða framleiðandi rafbíla með afburða aksturseiginleika bætist í bílaflóru Brimborgar
2022
Brimborg birtir í fyrsta skipti heildstætt sjálfbærniuppgjör fyrir öll rekstrarsvið félagsins á öllum starfsstöðvum um allt land með ítarlegum upplýsingum um áhrif starfsemi sinnar á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS).
2022
Opel, þýskur framleiðandi rafmagnaðra bíla bætist við úrvalið hjá Brimborg.
2022
Dieci, ítalskur framleiðandi skotbómulyftara styrkir enn frekar atvinnutækjaframboð Brimborgar undir merki Veltis.
2023
Brimborg opnar hraðhleðslunet fyrir rafbíla undir vörumerkinu Bílorka.
2024
Brimborg opnar vefverslun með hleðslustöðvar fyrir heimili, sumarhús og fyrirtæki undir vörumerkinu Íslensk Bílorka.
2024
Brimborg fangar 60 árum í bílgreininni.
Viltu vita enn meira?
Saga Brimborgar - í fremstu röð í 60 ár
Saga bifreiðaumboðsins Brimborgar er viðburðarrík og að sumu leyti ævintýraleg og hefur starfsemi fyrirtækisins tekið stakkaskiptum síðan grunnurinn var lagður fyrir 60 árum. Fyrirtækið var stofnað árið 1977 þegar innflutningur hófst á Daihatsu bílum frá Japan en aðdragandann má rekja til ársins 1964.
Ventlaviðgerðir við Köllunarklettsveg
Árið 1964 tók bílaverkstæðið Ventill til starfa við Köllunarklettsveg með ventlaviðgerðir sem sérgrein. Fljótlega tók fyrirtækið að sér þjónustu á Toyota bílum og í framhaldi af því var árið 1969 stofnuð varahlutaþjónusta um þann rekstur undir nafninu Toyota varahlutaumboðið. Tengingin við Toyota tók á sig ýmsar myndir og ein þeirra var innflutningur á Toyota saumavélum sem hófst árið 1973. Saumavélarnar áttu heldur betur eftir að koma við sögu Brimborgar síðar.
Með þessum skrefum var fyrsti kaflinn í sögu bílaumboðsins Brimborgar hafinn en hann stóð yfir í tíu ár og jókst velta fyrirtækisins stöðugt.
Saumavélin markar sporin
Um miðjan áttunda áratuginn varð ljóst að Toyota umboðið ætlaði sér að taka við allri viðgerðar- og varahlutaþjónustu á Toyota bílum og því urðu eigendur Ventils og Toyota varahlutaumboðsins að finna fyrirtækjum sínum nýjan rekstrargrundvöll. Í þeirri þróun komu Toyota saumavélarnar við sögu en fyrir milligöngu framleiðanda þeirra komst á samband við japanska bílaframleiðandann Daihatsu.
Sambandið við Daihatsu átti eftir að reynast happadrjúgt. Samningur um innflutning og einkaumboð fyrir Daihatsu bíla var undirritaður árið1976 og ári síðar tók Brimborg formlega til starfa. Tímasetningin var góð. Daihatsu hafði með fyrsta Daihatsu bílnum fangað athygli heimsbyggðarinnar sem dáðist að knáa bílnum með kýraugunum. Daihatsu bílar seldust vel á Íslandi á þessum árum, sérstaklega um miðjan níunda áratuginn.
Þar með var annar kaflinn í sögu Brimborgar hafinn.
Brimborg yfirtekur Volvo umboðið
Þann 22. júlí 1988 urðu kaflaskipti í sögu Brimborgar þegar fyrirtækið keypti Velti h.f. sem var með Volvo bílaumboðið á Íslandi. Í kjölfarið voru gerðir samningar um einkaumboð Brimborgar fyrir Volvo á Íslandi. Við það jukust umsvif fyrirtækisins verulega því með umboðinu fylgdu allar framleiðsluvörur Volvo, fólks- og vörubílar, langferðabílar og strætisvagnar, Volvo Penta báta- og ljósavélar, vinnuvélar og vökvadælur, auk viðhalds- og varahlutaþjónustu. Á sama tíma hóf Brimborg innflutning á ýmsum öðrum vörum s.s HIAB vörubílskrönum, Focolift vörulyftum, Multilift gámakrókum, Hultsteins kælitækjum fyrir vörubíla, Pirelli og Nokian hjólbörðum og Zetterbergs vörubílspöllum.
Volvo fólksbílar byggðu á afar góðum grunni á Íslandi og var jafnvel talað um Volvo sem fasteign á hjólum. Volvo bílar voru afar endingargóðir og áreiðanlegir og hafði tilkoma Volvo mikil áhrif á þá stefnu sem rekstur Brimborgar tók á næstu árum. Áfram var byggt á traustum og öruggum grunni enda tók Brimborg við Volvo á tímamótum þar sem hinir vinsælu Volvo 850 bílar voru væntanlegir og margar nýjungar í öryggismálum voru kynntar til sögunnar árin á eftir.
Þar með var þriðji kaflinn í sögu bifreiðaumboðsins Brimborgar hafinn.
Brimborg kaupir Ford-umboðið og Citroën-umboðið
Þann 31. janúar 1995 urðu önnur kaflaskipti í sögu Brimborgar þegar fyrirtækið yfirtók Ford og Citroën umboðin af Globus. Samningar um einkaumboð fyrir Ford og Citroën voru í höfn. Í upphafi var lögð áhersla á uppbyggingu Ford vörumerkisins á Íslandi. Með Ford umboðinu fylgdu allar framleiðsluvörur Ford Motor Company: Fólksbílar, sendibílar, jeppar, pallbílar og hópferðabílar, auk verkstæðis- og varahlutaþjónustu.
Yfirtaka Brimborgar á Ford var afar mikilvægt skref. Ford er með stærstu bílaframleiðendum heims og einn sá allra þekktasti. Eftir yfirtökuna hafði Brimborg því leiðandi bílaframleiðanda innan sinna raða. Enn og aftur var tímasetningin hjá Brimborg góð því Ford hafði nýlega kynnt til sögunnar bíl sem ætlað var að leiða sókn merkisins um allan heim, hinn nútímalega Ford Mondeo. Grunnurinn til næstu ára var því orðinn mjög traustur og nokkrum árum síðar bættist Ford Focus við framleiðslulínuna og jók hann enn frekar velgengni Ford merkisins á Íslandi.
Brimborg kaupir Þórshamar á Akureyri
Þann 1. október 1996 urðu enn ein kaflaskiptin í sögu Brimborgar þegar fyrirtækið keypti Þórshamar á Akureyri. Nafni fyrirtækisins var breytt í Brimborg Akureyri en þetta var í fyrsta skipti sem bílaumboð opnaði fullbúið útibú utan Reykjavíkur sem var að fullu í eigu þess. Markmið Brimborgar með þessum kaupum var að styrkja stöðu fyrirtækisins á landsbyggðinni og bæta þjónustuna við fjölmarga trygga viðskiptavini úti á landi.
Þar með var fjórði kaflinn í sögu bílaumboðsins Brimborgar hafinn.
Brimborg flytur í sérhannað húsnæði
Árið 1999 var tímamótaár í rekstri Brimborgar - en aðeins með sérhannaðri aðstöðu á Bíldshöfða 6 var hægt að ná því stóra markmiði að vera bílaumboðið með bestu þjónustuna. Húsnæðið á Bíldshöfða var sérhannað fyrir þarfir Brimborgar og var vandað til verka.
MAX1 Bílavaktin fæðist og Citroën endurfæðist
Þann 1. nóvember árið 2000 opnaði Brimborg MAX1 Bílavaktina en fyrirtækið sér um alla almenna hraðþjónustu fyrir allar tegundir bíla. Verkstæði MAX1 eru nú fjögur: Bíldshöfða 5a, Knarrarvogi 2, Jafnaseli 6 og Dalshrauni 5, Hafnarfirði.
Í nóvember árið 2000 hóf Brimborg einnig endurmarkaðssetningu Citroën á Íslandi, en þá hafði vörumerkið ekki verið til sölu hér á landi í átta ár. Á stuttum tíma var þjónustan styrkt og salan aukin og hið fornfræga vörumerki Citroën er nú eitt öflugasta franska bílamerkið á Íslandi. Citroën hafði á þessum tíma komist klakklaust í gegnum mikla endurskipulagningu og nýir og spennandi bílar komu í röðum frá fyrirtækinu. Citroën Saxo, Berlingo, Xsara Picasso og C5 voru allt gríðarlega vinsælir bílar á meginlandinu og státuðu af framúrskarandi hönnun, hefðbundnum Citroën þægindum og rekstarhagkvæmni sem eftirspurn var eftir á Íslandi. Sala og þjónusta á Citroën fer fram á Bíldshöfða 8, örstutt frá höfuðstöðvum Brimborgar.
Brimborg þrefaldast að stærð á aðeins fjórum árum
Undir kjörorðinu "öruggur staður til að vera á" og nýrri gæðastefnu óx starfsemi Brimborgar gríðarlega á árunum 2001-2005 og þrefaldaðist fyrirtækið að stærð. Svo hraður vöxtur hefur óhjákvæmilega í för með sér vaxtarverki en samhentur hópur Brimborgara tókst á við verkefnið af skynsemi og lagði á sig mikla vinnu samhliða vextinum.
Brimborg tekur yfir Mazda bílaumboðið
Þann 1. október 2005 tók Brimborg við Mazda bílaumboðinu á Íslandi en Mazda bílar hafa lengi verið þekktir fyrir gæði. Mazda voru með mest seldu bílum landsins árin 1978 - 1987 og áttu þeir dyggan hóp aðdáenda. Mazda bílar skera sig úr asísku samkeppninni með því að bjóða óvenju glæsilega hönnun í bland við japönsk gæði og áreiðanleika.
Húsnæði Mazda er á Bíldshöfða 8 í Reykjavík, steinsnar frá aðalstöðvum Brimborgar. Þar veitir Brimborg alhliða þjónustu fyrir Mazda eigendur samkvæmt gæðastöðlum Mazda.
Árið 2005 var auk þess tekið stórt skref í að bæta þjónustu við Citroën eigendur enn frekar þegar opnaður var nýr sýningarsalur og verkstæði í samræmi við ýtrustu gæðakröfur framleiðanda Citroën.
Vélaland bílaverkstæði bætist í hópinn
Árið 2007 tók Brimborg yfir rekstur Vélalands bílaverkstæðis sem hefur eflst og dafnað síðan. Árið 2014 eru starfsstöðvar Vélalands á þremur stöðum, á Bíldshöfða 8, við Jafnasel 6 og við Dalshraun 5 í Hafnarfirði. Vélaland bílaverkstæði á sér langa sögu og var fyrirtækið stofnað árið 1949. Reynt starfsfólk Vélalands sinna allri hefðbundinni viðgerðarþjónustu fyrir bíla og auk þess sérhæfðum vélaviðgerðum.
Gæðastjórnunarkerfi Brimborgar fær vottun
Í febrúar 2007 hlaut gæðastjórnunarkerfi Brimborgar ISO 9001 alþjóðlega gæðavottun, fyrst bílaumboða og gæðastefna Brimborgar uppfærð.
Brimborg innleiðir háþróað upplýsingatæknikerfi
Brimborg hóf innleiðingu á einu fullkomnasta upplýsingatæknikerfi bílgreinarinnar (DMS, eða Dealer Management System) í október 2007. Innleiðingin tókst frábærlega og henni lauk á aðeins 6 mánuðum eða um vorið 2008. Hugbúnaðurinn byggir í grunninn á stöðluðum Microsoft Dynamics AX viðskiptahugbúnaði sem Annata, m.a. í samvinnu við Brimborg, nýtir til að þróa víðtæka bílgreinalausn sem heitir Annata IDMS. Við þróun kerfisins var lögð áhersla á staðlaðar lausnir til að tryggja áreiðanleika, sveigjanleika og lágan rekstrarkostnað. Þannig var Brimborg gert kleift að þróa á einfaldan hátt nýjar þjónustulausnir fyrir viðskiptavini sína en um leið lækka kostnað við rekstur upplýsingatæknikerfisins. Árangurinn er framar vonum og hefur leitt til þess að IDMS-lausn Annata er notuð í bílgreininni víða um heim.
Brimborg hefur bílaleigurekstur
Í samræmi við stefnu Brimborgar var tekin sú ákvörðun að hefja rekstur bílaleigu fyrir þann 1. febrúar 2009. Vel þekkt vörumerki í heimi bílaleiga, Dollar Rent A Car og Thrifty Car Rental, bættust þá formlega við starfsemi Brimborgar auk þess sem Brimborg festi kaup á bílaleigunni Saga Car Rental. Starfsstöðvar Dollar, Thrifty og Saga Car Rental eru í Reykjavík og í Reykjanesbæ.
Sókn í kjölfar bankahruns
Í kjölfar bankahrunsins í október 2008 urðu miklar og hraðar breytingar á rekstrarumhverfi Brimborgar. Bílamarkaðir og markaðir fyrir atvinnutæki hrundu og mikil verðbólga og gengisfall krónunnar ollu miklum kostnaðarhækkunum á sama tíma og tekjuhrun varð vegna falls markaða. Á þeim sex árum sem liðin eru frá bankahruni hefur starfsfólk Brimborgar nýtt reynslu sína og þekkingu til að laga fyrirtækið að nýju umhverfi. Árið 2014 fagnar Brimborg 50 árum í bílgreininni og fer öflugra en nokkru sinni inn í framtíðina til að veita viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu. Árið 2016 bætist Peugeot, franskur bílaframleiðandi við úrvalið hjá Brimborg.
Ný glæsileg þjónustumiðstöð Veltis opnuð
Volvo atvinnutækjasvið Brimborg flutti í nýja og glæsilega þjónustumiðstöð í nóvember árið 2018. Glæsilegt nýtt húsnæði Veltis er sérhannað fyrir þjónustu við Volvo atvinnubíla og atvinnutæki með það að markmiði að bjóða upp á framúrskarandi þjónustu við viðskiptavini og þægilega aðkomu. Í húsakynnunum er glæsilegasta og best tækjum búna verkstæði landsins ásamt fullkomnu vöruhúsi og bestu mögulegu vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk. Staðsetningin að Hádegismóum 8 er frábær í útjaðri Reykjavíkur þar sem aðgengi frá stofnbrautum er mjög gott og nóg rými utandyra.
Nýtt nafn Volvo atvinnutækjasviðs er Veltir. Nýtt nafn var valið til að aðgreina starfsemi Volvo atvinnutækjasviðs frá Brimborg við flutning á nýjan stað svo ekki yrði misskilningur um hvar annars vegar fólksbílastarfsemi Brimborgar yrði til húsa og hins vegar atvinnutækjastarfsemin. Nafnið hefur líka þessa skemmtilegu tengingu eins og áður segir, er stutt og laggott en hefur líka sögulega tengingu við Volvo á Íslandi. Sumarið 1988 tók Brimborg yfir starfsemi Volvo á Íslandi, bæði fólksbílastarfsemina og atvinnutækja sem þá var rekið undir nafninu Veltir og sameinað Brimborg.
Polestar, Opel og Dieci til Brimborgar
Polestar, hágæða framleiðandi rafbíla með afburða aksturseiginleika bætist í bílaflóru Brimborgar árið 2021 og í beinu framhaldi, í byrjun árs 2022 bætist Opel, þýskur framleiðandi rafmagnaðra bíla við úrvalið hjá Brimborg. Til viðbótar styrkist atvinnutækjaframboð Brimborgar, undir merki Veltis, enn frekar með komu Dieci sem er ítalskur framleiðandi skotbómulyftara árið 2022.
Íslensk Bílorka
Íslensk Bílorka er hreyfiafl orkuskipta með það að markmiði að styrkja net hleðslustöðva á Íslandi fyrir rafbíla við heimili, sumarhús, fyrirtæki, umferðaræðar og aðra áfangastaði svo hraða megi orkuskiptum.
Heilstætt sjálfbærniuppgjör Brimborgar
Brimborg birtir í fyrsta skipti árið 222 fyrir rekstrarárið 2021 heildstætt sjálfbærniuppgjör fyrir öll rekstrarsvið félagsins á öllum starfsstöðvum um allt land með ítarlegum upplýsingum um áhrif starfsemi sinnar á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS). Brimborg er fyrst bíla- og atvinnutækjaumboða á Íslandi og fyrsta ökutækjaleigan á Íslandi sem gefur út heildstætt sjálfbærniuppgjör.
Brimborg í dag
Brimborg er bílaumboð sem selur og þjónustar nýja og notaða fólksbíla og sendibíla, býður fólksbíla og sendibíla til leigu og langtímaleigu, býður dekk fyrir allar gerðir bíla og hraðþjónustu fyrir allar gerðir bíla auk þess að bjóða hleðslustöðvar til sölu og uppsetningu fyrir alla rafbíla og býður hraðhleðslu víða um landið fyrir rafbíla. Brimborg er einnig sölu- og þjónustuumboð fyrir vörubíla, rútur, strætisvagna, vinnuvélar og bátavélar með starfsemi í Reykjavík, Hafnarfirði, Reykjanesbæ og á Akureyri.
Brimborg er umboðsaðili á Íslandi fyrir Ford, Volvo, Polestar, Mazda, Citroën, Peugeot og Opel og er einnig umboðsaðili á Íslandi fyrir Volvo vörubíla, Renault vörubíla, Volvo vinnuvélar, Volvo rútur og strætisvagna, Volvo Penta bátavélar, Dieci skotbómulyftara, Humus sturtuvagna, Reisch tengivagna, Hiab hleðslukrana og margvíslegar aðrar ábyggingar. Brimborg selur nýja og notaða bíla, rekur verkstæði og selur varahluti fyrir fyrrgreind vörumerki. Brimborg rekur bílaleigu undir sínu nafni, Saga Car Rental og er einnig leyfishafi fyrir Thrifty Car Rental og Dollar Rent A Car á Íslandi og býður bílaleigubíla til innlendra sem erlendra ferðamanna, langtímaleigu, vetrarleigu og sendibílaleigu.
Brimborg er umboðsaðili Nokian dekkja á Íslandi sem seld eru í Brimborg og hjá MAX1 Bílavaktin en Brimborg á og rekur bílahraðþjónustuna MAX1 Bílavaktin og almenna bílaverkstæðið Vélaland Bílaverkstæði.
Brimborg býður búnað til hleðslu allra tegunda rafknúinna ökutækja undir merki Íslenskrar Bílorku og rekur hraðhleðslunet fyrir allar tegundir rafknúinna ökutækja undir vörumerkinu Bílorka.
Áratugareynsla starfsfólks
Þótt auður hvers fyrirtækis felist að miklu leyti í góðu skipulagi og rekstri er mannauðurinn ekki síður mikilvægur. Þar hefur Brimborg miklu láni að fagna og mjög hátt hlutfall starfsfólks fyrirtækisins hefur starfað hjá því í yfir 20 ár. Þetta er þrautþjálfað fólk með mikla reynslu og þekkingu og slík tryggð starfsfólks við fyrirtæki í harðri samkeppni er ómetanleg.