Fara í efni

Hleðslutengi fast í bílnum

Hleðslutengi fast í bílnum

Ef hleðslutengið festist í rafbílnum í hleðslu og þú getur ekki losað hleðslutengið fylgdu þá þessum skrefum til að leysa vandamálið. Ekki reyna að losa hleðslutengið með óþarfa afli – það getur valdið skemmdum á bæði bíl og hleðslutengi. Ef allt er eðlilegt þá á hleðslutengið að losna með léttu átaki. En ef svo er ekki þá skaltu fylgja eftirfarandi leiðbeiningum í þessari röð sem er sett upp þannig að einfaldasta og fljótlegasta leiðin er fyrst og svo koll af kolli.

Leiðbeiningar þessar gilda um alla rafbíla frá Brimborg frá Volvo, Polestar, Ford, Mazda, Citroën, Peugeot og Opel en gilda einnig um allar aðrar tegundir rafbíla.

1. Ýttu á losunarhnappinn við hleðslustýringu bílsins

  • Flestir rafbílar eru með losunarhnapp við hleðslustýringuna. Ýttu á hann og reyndu að losa hleðslutengið. Ef það dugar ekki farðu þá í skref 2.

2. Læstu og aflæstu bílnum

  • Læstu bílnum og bíddu í 30–60 sekúndur áður en þú aflæsir honum aftur. Þetta getur endurstillt rafkerfið og losað um læsinguna á hleðslutenginu. Ef það dugar ekki farðu þá í skref 3.

3. Stöðvaðu hleðslu

  • Í bílnum: Opnaðu stillingar hleðslu á skjánum og veldu „Stoppa hleðslu“ eða sambærilegan valkost.
  • Í appi bílsins: Ef bíllinn er tengdur við app, reyndu að stöðva hleðsluna þar.
  • Í heimahleðslustöð: Sláðu rafmagnsöryggið fyrir hleðslustöðina út, bíddu í nokkrar sekúndur og kveiktu svo aftur á henni.
  • Í almenningshleðslustöð: Athugaðu hvort hægt sé að stöðva hleðslu í appi eða á skjá stöðvarinnar.

Ef þetta dugar ekki farðu þá í skref 4.

4. Endurræstu rafkerfi bílsins („Soft Reset“)

  • Sumir bílar eru með sérstakan „reset“-hnapp sem þarf að halda niðri í 20–30 sekúndur til að stýrikerfið endurræsi sig.
  • Ef bíllinn hefur ekki slíkan hnapp: Læstu bílnum og bíddu í 5–10 mínútur áður en þú reynir að fjarlægja hleðslutengið aftur.

Ef þetta dugar ekki farðu þá í skref 5.

5. Losaðu hleðslutengið handvirkt (neyðarlosun)

Ef ofangreind skref virka ekki, þá er hægt að nota neyðarlosun. Neyðarlosun getur verið á mismunandi stöðum eftir bílgerðum en oftast á þessum fjórum stöðum: 

  • Við hleðslustýringuna: Sumir bílar eru með lítinn hnapp við hleðslustýringuna. Ýttu á hann.
  • Í skottinu: Sumir bílar eru með lítinn togstreng sem leysir læsinguna. Togaðu þéttingsfast í hann.
  • Inni í bílnum: Sumir bílar eru með neyðarlosunarhnapp í mælaborði eða togstrent undir mælaborði. Ýttu eða togaðu.
  • Undir húddinu („frunk“): Í sumum tilfellum er togstrengur staðsettur undir húddinu. Togaðu þéttingsfast.

Ef þú finnur ekki handvirku neyðarlosunina þá skaltu skoða skoða handbók bílsins til að finna rétta staðsetningu fyrir þinn bíl.

6. Ef ekkert virkar – Hafðu samband við;

  • Þjónustuaðila hleðslustöðvarinnar (ef þú ert í almenningshleðslu).
  • Umboðsaðila framleiðanda bílsins til að fá faglega aðstoð.

Ábending: Gættu þess ávallt að hleðslutengið og hleðslustýring bílsins sé hvort tveggja hreint, laust við ryk eða óhreinindi.