Fara í efni

Hleðslustöðvar og hleðsluhraði

Hleðlustöðvar og hleðsluhraði

Rafbílar, hvort sem um er að ræða 100% hreina rafbíla (BEV) eða tengiltvinnrafbíla (PHEV), krefjast sértækrar hleðslu til að nýta raforku sem best og tryggja öryggi. Hér er stutt yfirlit yfir helstu atriði sem vert er að hafa í huga, en ráðgjafar Brimborgar eru ávallt tilbúnir að veita nánari upplýsingar og sérsniðna ráðgjöf.

1. Munurinn á 100% hreinum rafbíl og tengiltvinnrafbíl

100% hreinn rafbíll (BEV)

  • Gengur einungis fyrir rafmagni.
  • Hleður inn á rafhlöðuna með hemlaorku (endurheimt).

Hægt að hlaða:

  • Heima eða í vinnu með hleðslustöð (mælt með hleðslustöð fyrir öryggi og hraðari hleðslu).
  • Í venjulegum heimilistengli (hægari hleðsla, ekki ráðlögð til lengri tíma).
  • Á hraðhleðslustöðvum víða um land (DC-hleðsla).

Tengiltvinnrafbíll (PHEV)

  • Bæði rafvél og sprengihreyfill (bensín eða dísil).
  • Keyrir á rafmagni þar til rafhlaðan tæmist, þá tekur sprengihreyfillinn sjálfkrafa við.
  • Hleður sig einnig með hemlaorku.

Hægt að hlaða:

  • Heima eða í vinnu með hleðslustöð (mælt með hleðslustöð fyrir öryggi og hraðari hleðslu).
  • Í venjulegum heimilistengli (hægari hleðsla, ekki ráðlögð til lengri tíma).
  • Oftast ekki hægt að hlaða í hraðhleðslustöð (DC).

2. Öryggi og reglur um rafhleðslu

Til að tryggja öryggi við rafhleðslu á rafbílum og tengiltvinnrafbílum hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sett reglur um raflagnir þar sem rafbílar eru hlaðnir. Mælt er með að:

  • Fá löggiltan rafvirkjameistara til að yfirfara aðstæður áður en hleðsla hefst.
  • Nota viðurkenndan hleðslubúnað og hleðslustöð sem uppfyllir kröfur HMS.
  • Gæta sérstaklega að því að bilunarstraumsrofi (lekaliði) sé af gerð B eða að DC-lekastraumsvörn sé innbyggð í hleðslustöðina.

Mikilvægt: Ekki er ráðlegt að nota hefðbundinn heimilistengil til daglegrar hleðslu nema tryggt sé að hleðslustraumur fari ekki yfir 10A og réttur öryggisbúnaður sé til staðar.

3. Nokkur atriði sem gott er að vita

  • Heimahleðsla er algengust: Samkvæmt könnun Samorku (sept. 2020) hlaða 96% rafbílaeigenda heima.
  • Rafmagnið nýtist vel: 46% aksturs tengiltvinnrafbíla er á rafmagni samkvæmt sömu könnun.
  • Venjulegir heimilistenglar: Eru ekki ætlaðir til langvarandi hleðslu rafbíla eða tengiltvinnbíla.
  • Ekki nota framlengingar- eða fjöltengi: Óöruggt og getur valdið brunahættu.
  • Einn bíll á hvern tengil: Aldrei hlaða tvo bíla úr sama tengli samtímis.
  • Fáðu fagmann til verksins: Rafvirki metur hvernig best er að tengja og setja upp hleðslustöð.
  • Hugsaðu um frágang: Hafðu tengil eða hleðslustöð sem næst bílnum, hengdu snúruna upp og tryggðu gott aðgengi.
  • Heimakapal lengd: Kapallinn á helst ekki að hanga í lausu lofti.
  • Aukabúnaður: Margir velja að hafa auka hleðslukapal eða ferðahleðslutæki í bílnum ef hlaða utan heimilis t.d. úr alfaraleið þar sem ekki er auðvelt að komast í hleðslustöð eða hleðslustöð er án kapals.

4. Helstu hugtök

  • Afl (kW): Segir til um afl rafmótors líkt og hestöfl (hö) fyrir bensín- og dísilbíla.
  • Orka (kWh): Mælieining fyrir stærð rafhlöðu, líkt og lítrar í eldsneytistanki.
  • Eyðsla (kWh/100 km): Sambærilegt og eldsneytiseyðsla er mæld sem lítrar /100 km fyrir bensín- og dísilbíla.
  • Straumur (A): Ákvarðar hversu mikla orku er hægt að færa úr tengli eða hleðslustöð yfir í rafhlöðu bílsins.

Sjá nánar um eyðslu rafbíls og hleðslukostnað

5. Drægni og varmadæla

  • Drægni rafbíla og tengiltvinnrafbíla er gefin upp samkvæmt WLTP-staðli og ræðst m.a. af stærð rafhlöðu, orkunýtni bíls og aksturslagi t.d. aksturshraða.
  • Ytri aðstæður hafa áhrif á drægni: Hitastig, vindur, vegir og fleira hafa áhrif á raunverulega drægni.
  • Varmadæla eykur drægni: Endurnýtir orku frá kerfum bílsins fyrir miðstöð og drifrafhlöðu. Hún getur aukið drægni um allt að 15%, sérstaklega í loftslagi eins og á íslandi þar sem algengt hitastig er frá 5 til 15 gráður.

6. Hleðslustöðvar heima og í atvinnurekstri

AC-hleðslustöðvar (venjuleg hleðsla)

  • Algengustu stöðvarnar heima og hjá fyrirtækjum.
  • Tengiltvinnrafbílar eru almennt eingöngu hlaðnir með AC-stöðvum.
  • Ráðlegt er að kaupa 22 kW stöð til að vera vel undirbúinn fyrir framtíðina, jafnvel þó núverandi bíll hlaði á lægri afköstum.
  • Íslensk Bílorka í samvinnu við Brimborg býður hagstætt verð og fast verð á uppsetningu AC hleðslustöðva.

DC-hraðhleðslustöðvar (hraðhleðsla)

  • Sett upp á almenningssvæðum, við stofnbrautir eða hjá stærri fyrirtækjum.
  • 100% rafbílar geta nýtt sér DC-hleðslu; tengiltvinnrafbílar sjaldnast.
  • DC-stöðvar eru misaflmiklar mælt í kW sem styttir hleðslutíma (eykur hleðsluhraða) eftir því sem kW eru fleiri. Hleðslustöðin getur þó aldrei hlaðið hraðar en bíllinn tekur við í kW.
  • Íslensk Bílorka í samvinnu við Brimborg býður mjög áreiðanlegar DC-hraðhleðslustöðvar á hagstæðu verði og býður sértilboð í uppsetningu.

Hleðsla rafbíla

7. Lekaliði og öryggisbúnaður

  • HMS krefst þess að lekaliði (bilunarstraumsrofi) fyrir hleðslustöð sé af B-gerð eða að DC-lekastraumsvörn sé innbyggð í hleðslutækið.
  • Nýlegri hleðslustöðvar eru gjarnan með slíka vörn innbyggða.
  • Löggiltur rafverktaki skal ávallt sjá um uppsetningu hleðslustöðva.

8. Hleðsluhraði og -tími

Hleðsluhraði ræðst af:

  • Afl hleðslustöðvar eða tengils í kW.
  • Hleðslubúnaði bílsins (hleðslugetu bíls í kW).
  • Hleðslusnúru (hleðslukapli) mælt í amperum.
  • Hleðslustöðu og hitastigi rafhlöðunnar.

Tengiltvinnrafbílar

  • Rafhlaðan er mun minni en í hreinum rafbílum og ekki er óalgengt 13 kWh til 24 kWh.
  • Yfirleitt hlaðnir á AC-hleðslustöðvum með 3,3 kW til 7,4 kW.
  • Sjaldan mögulegt að hraðhlaða (DC).

Hreinir rafbílar

  • Rafhlaðan er mun stærri, ekki er óalgengt í minni bílum 40-55 kWh, meðalstórum bílum um 70 - 80 kWh og í stærri bílum jafnvel 100 - 200 kWh. 

  • Hlaðnir á AC-stöð heima eða á vinnustað (t.d. 7,4 kW–22 kW).

  • Hægt að hraðhlaða (DC) víða í hraðhleðslustöðvum sem geta verið 30 kW, 50 kW, 150 kW og jafnvel upp í 400 kW.  Hleðslugeta fer eftir hleðslugetu bílsins sem er er takmarkandi þáttur ef hún er lægri en hleðslugeta stöðvar. Rafbílar með 800 volta kerfi geta hlaðið tvöfalt hraðar en bílar með 400 volta kerfi.  Yfirleitt er ekki mælt með að hraðhlaða meira en í 80% hleðslustöðu þar sem oftast hægir verulega á hleðslunni eftir það. 

9. Kynntu þér málið betur


Með skýrari reglum og góðri ráðgjöf er auðvelt að taka fyrstu skrefin í rafbílavæðingu. Þú getur alltaf leitað til söluráðgjafa Brimborgar til að fá faglega og hlutlausa ráðgjöf um val á rafbíl, hleðslustöð og uppsetningu. Njóttu þess að aka hljóðlega og spara og minnka mengun um leið!