Hvað kostar að hlaða rafbíl?
Margir velta fyrir sér hvað kosti að hlaða rafbíl eða tengiltvinn rafbíl og hvað þannig bílar nota af rafmagni.
Hvernig er raforkan mæld og hvað kostar einingin?
Orka rafbíla er mæld í kWh (kílóvattstundir) og kostnaður við hverja kílóvattstund á Íslandi er um 16 kr. en getur þó verið breytilegt eftir búsetu og söluaðila raforkunnar (Á vef Orkuseturs getur þú séð raforkukostnað eftir sölu- og dreifingaraðilum raforku).
Þessi kostnaður er samanlagður kostnaður annars vegar fyrir orkuna og hins vegar fyrir dreifingu hennar til notenda. Því eru sendir tveir reikningar til notenda, annars vegar frá orkufyrirtækinu sem framleiðir orkuna og hins vegar frá dreifingarfyrirtæki fyrir kostnað við dreifingu.
Hvað kostar að hlaða rafbíl á heimarafmagni?
Ef við tökum dæmi af hreinum rafbíl með 50 kWh drifrafhlöðu þá kostar 800 kr. að fylla þá stærð drifrafhlöðu af rafmagni eða 50 kWh x 16 kr. per kWh = 800 kr. Ef umræddur bíll kemst 340 km á fullri hleðslu þá er eyðsla bílsins á rafmagni 14,7 kWh per 100 km (50/340*100). Þá kosta 100 km 235 kr. og hver km er þá að kosta 2.35 kr. Akstur til Akureyrar kostar þá um 940 kr. og árlegur akstur upp á 10.000 km kostar um 23.500 kr. og árlegur akstur upp á 15.000 km kostar þá 35.250 kr.
Tengiltvinn rafbílar eru með minni drifrafhlöður og algeng stærð er í kringum 13 kWh. Það kostar þá um 208 kr. að fylla þá stærð af drifrafhlöðu. Samskonar útreikningar gilda um eyðslu þeirra á rafmagni eins og hér að ofan er lýst.
Kílómetragjald sem innleitt var á rafbíla og tengiltvinnbíla þann 1.1.2024 bætist við aksturskostnaðinn. Ekki er reiknað með í ofangreindu dæmi að viðhaldskostnaður rafbíls er minni þar sem ekki þarf að smyrja, þjónustuskoðanir eru sjaldnar og margir viðhaldshlutir eru ekki í rafbíl sem eru í eldsneytisbíl.
Athugið: Það notast alltaf einhver orka við hleðsluna sjálfa og því er kostnaðurinn eitthvað hærri en að ofan er reiknað.
Íslensk Bílorka í samvinnu við Brimborg býður AC heimahleðslustöðvar á hagstæðu verði og fast verð á uppsetningu og einnig DC hraðhleðslustöðvar fyrir fyrirtæki og tilboð í uppsetningu á vef Bílorku.
Smelltu og skoðaðu rafmagnaðar gerðir bíla hjá Brimborg
Hvað kostar að hlaða rafbíl á hraðhleðslustöð?
Ofangreindir útreikningar miðast við að hlaðið sé heima eða á starfsstöð fyrirtækis. En ef hlaðið er á hraðhleðslustöðvum þá getur kostnaðurinn verið hærri því sá sem á og rekur hraðhleðslustöðina leggur á gjald til að reka stöðina. Einnig er oft rukkað tímagjald fyrir bílastæðið sem hleðslustöðin stendur við til að tryggja að rafbíllinn sé færður þegar hann hefur náð hæfilegri hleðslu sem oft er miðað við 80%. Það rýmir þá hleðslustöðina fyrir næsta rafbíl.
Ef kostnaður við að fylla á 50 kWh drifrafhlöðu er 800 kr. m.v. heimarafmagn eins og í dæmin hér á undan þá yrði nokkuð dýrara að fylla bílinn á hraðhleðslustöð. Gjald á hraðhleðslustöðvum getur verið misjafnt en ef við gefum okkur að kWh kosti 45 kr. þá myndi kosta 2.250 kr. að fylla rafbíl með 50 kWh drifrafhlöðu.
Hvað sparar maður mikið í orkukostnað m.v. bensínbíl?
Til samanburðar væri hægt að bera saman bensínbíl sem eyðir 6 lítrum per 100 km og væri með bensíntank sem rúmaði 45 lítra. Ef líterinn kostar 330 kr. þá myndi kosta rúmar 14.850 kr. að fylla á tankinn og 100 km myndu kosta um 1.980 kr. og hver km kostar þá 19,8 kr. Akstur til Akureyrar mynd kosta um 7.920 kr. og árlegur 15.000 km akstur myndi kosta 297.000 kr.
Miðað við dæmin hér fyrir ofan þá er auðveldlega hægt að spara 261.750 kr. á ári miðað við 15.000 km akstur á ári með því að skipta yfir í 100% rafbíl frá bensín-eða dísilbíl. Orkukostnaðurinn væri því um 88% lægri.
Ef kílómetragjaldinu sem er 6,0 kr per km þegar þetta er skrifað er bætt við þá má reikna með að sparnaðurinn geti verið um 50-60%. Ekki er reiknað með í ofangreindu dæmi að viðhaldskostnaður rafbíls er minni þar sem ekki þarf að smyrja, þjónustuskoðanir eru sjaldnar og margir viðhaldshlutir eru ekki í rafbíl sem eru í eldsneytisbíl. Því er sparnaðurinn á rafbíl enn meiri.
Smelltu hér til að skoða allt um hleðslustöðvar og hleðsluhraða, hér til að skoða verð rafbíla og ívilnanir (skattaafslættir), einnig allt um kostnað við uppsetningu hleðslustöðva hér og allt um úrval rafbíla hjá Brimborg