Fara í efni

Rafbíll er 54%-75% hagkvæmari í akstri þrátt fyrir kílómetragjald. Kílómetragjald leggst á bensín- og dísilbíla um áramót.

Rafbíll er 54%-75% hagkvæmari í akstri þrátt fyrir kílómetragjald. Kílómetragjald leggst á bensín- og dísilbíla um áramót.
Rafbíll er hagkvæmari í akstri

Rafmótorinn er einstaklega hagkvæmt fyrirbæri og ekkert sem keppir við hann. Rafbílar sem nota íslenska, endurnýjanlega orku eru ekki bara samfélagslega hagkvæmir á Íslandi með því að draga úr loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda, stuðla að orkuöryggi, betri nýtingu á raforkukerfinu og gjaldeyrissparnaði. Þeir eru líka hagkvæmir fyrir rekstur heimila og fyrirtækja.

Sparnaður í orkukostnaði með því að aka rafbíl sem notar 20 kWh af raforku per 100 km og greiðir 6 kr. í kílómetragjald er um 54% miðað við sambærilegan bensínbíl sem eyðir 7 lítrum af bensíni per 100 km og greiðir í dag ekkert kílómetragjald. Rafbíllinn er 75% hagkvæmari í akstri þegar tekið er tillit til lægri kostnaðar vegna þess að engra olíuskipta er þörf og lægri viðhaldskostnaðar.

Miðað er við hleðslu á heimarafmagni á 17 kr. / kWh og að bensín sé keypt á lægsta mögulega verði á 292,70 kr. / l og að akstur sé jafn meðalakstri heimilisbíls á Íslandi sem er um 14.000 km á ári eða um 38 km á dag. Aksturskostnaður er því um 9,40 kr. / km á rafbíl m.v. 20,49 kr. / km á bensínbíl og er mismunurinn 54% rafbílnum í hag.

Engin olíuskipti og færri slitfletir rafbíla minnka viðhald og auka sparnað

Ef einnig er tekið tillit til þess að slitfletir rafbíla eru færri sem þýðir minna viðhald og engin olíuskipti og varlega áætlað að sparnaður vegna þess sé um 60.000 kr. á ári þá lækkar aksturskostnaður rafbíls í 5,11 kr. / km sem er þá 75% lægri kostnaður m.v. bensínbíl.

Sambærilegar tölur fyrir dísilbíl sem eyðir 5 lítrum / 100 km sýna að kostnaður per km væri 15,26 kr. og því væri rafbíllinn um 66% ódýrari í akstri per km en dísilbíllinn einnig að teknu tilliti til lægri kostnaðar vegna viðhalds og engra olíuskipta.

Akstursparnaður vegna rafbíla getur jafngilt 30 þús. króna brúttótekjum á mánuði

Sparnaður á ári við að aka rafbíl m.v. bensínbíl er þá um 215.000 kr. sem gerir um 17.900 kr. sparnað á mánuði. Það jafngildir um 30 þús. krónum í brúttótekjur á mánuði. Sambærilegar tölur í sparnaði m.v. dísilbíl er 142 þús. kr. á ári eða um 11.900 þús. kr. á mánuði sem jafngildir um 22 þús. kr. í brúttótekjur á mánuði.

Rafbíll er líka hagkvæmari í langkeyrslu

Ef reiknað er með að aka þurfi 12 sinnum til Akureyrar á ári sem jafngildir að þriðjungur akstursins á ári sé langkeyrsla þá er samt sem áður hagkvæmara að vera á rafbíl. Ef miðað er við sama sparnað í viðhaldi og olíuskiptum og að alltaf þurfi að hlaða rafbílinn í hraðhleðslu á 65 kr. per kWh þá er samt sem áður 54% hagkvæmara að vera á rafbíl miðað við bensínbíl og 39% hagkvæmara að vera á rafbíl en dísilbíl.

Kílómetragjald leggst einnig á bensín- og dísilbíla 1. janúar 2025

Stjórnvöld munu leggja kílómetragjald á notkun allra ökutækja í stað olíu- og bensíngjalda frá og með 1. janúar 2025. Þá munu allir borga sem nota vegakerfið eftir fjölda ekinna kílómetra í samræmdu kerfi. Fjármögnun vegasamgangna verður því óháð orkugjöfum og mun endurspegla betur álag á vegakerfið sem gerir fjármögnunina sjálfbærari til framtíðar. Kolefnisgjald mun hækka á móti lækkun bensín- og olíugjalda og verður því áfram greitt fyrir notkun dísilolíu og bensíns vegna þeirra loftslagsáhrifa sem notkun þeirra orkugjafa veldur. Þessi framtíðarsýn byggir á því að jafnræði sé í gjaldtöku fyrir notkun vegasamgangna, óháð orkugjafa og eyðslu, með gagnsæjum og einföldum hætti til að tryggja trausta fjármögnun til framtíðar.


Vefspjall