Fara í efni

Viðsnúningur. Rafbílar 46,5% af bílakaupum heimila

Viðsnúningur. Rafbílar 46,5% af bílakaupum heimila
Heimilin kaupa í auknum mæli rafbíla skv. nýskráningartölum ágúst mánaðar yfir nýskráningar nýrra og notaðra rafbíla en 46,5% af nýskráningum til heimila voru rafbílar.
Heimilin kaupa í auknum mæli rafbíla skv. nýskráningartölum ágúst mánaðar yfir nýskráningar nýrra og notaðra rafbíla en 46,5% af nýskráningum til heimila voru rafbílar. Á heildarmarkaði fyrir nýja og notaða rafbíla hvort sem er til heimila, fyrirtækja eða bílaleiga var hlutdeild rafbíla í ágúst 44,2%.
 
Brimborg stærst í rafbílum í ágúst
Á heildarmarkaði nýrra rafbíla í ágúst var Brimborg stærst innflytjenda rafbíla, Volvo annað stærsta rafbílamerkið og Volvo EX30 annar vinsælasti rafbíllinn í landinu í ágúst. Þegar fyrstu 8 mánuðir ársins eru skoðaðir er Brimborg í öðru sæti innflytjenda með 281 rafbíl og Volvo er annað stærsta rafbílamerkið með 127 bíla. Volvo EX30 er annar vinsælasti nýi rafbíllinn á landinu með 58 bíla og Volvo XC40 vermir þriðja sætið með 52 bíla.
 
Fimm meginástæður fyrir auknum áhuga á rafbílum
Rekja má aukna hlutdeild rafbíla af heildarmarkaði til fimm meginástæðna.
 
  • Í fyrsta lagi leitast sífellt fleiri eftir því að lækka beinan rekstrarkostnað bílsins, hvort sem er heimili eða fyrirtæki og með rafbíl getur sú lækkun numið 50-60% vegna lægri orku- og viðhaldskostnaðar.
  • Í öðru lagi hefur rafbílaverð lækkað og í mörgum tilvikum er rafbíll á sama eða lægra verði og sambærilegur eldsneytisbíll.
  • Í þriðja lagi er í boði styrkur út árið 2024 frá Orkusjóði til kaupa á rafbíl og nemur hann 900.000 kr. sem lækkar rafbílaverðið enn frekar.
  • Í fjórða lagi hefur úrval rafbíla aukist mjög á árinu og skv. gögnum frá Samgöngustofu hafa 105 tegundir rafbíla verið nýskráðar á árinu en til samanburðar árið 2018 voru þær aðeins 18 sem er sexföldun. Með auknu úrvali verður rafbíll því oftar fyrir valinu sem bíll númer eitt á heimili eða sem bíll í flota fyrirtækis.
  • Í fimmta lagi hefur orðið gríðarleg þétting á hraðhleðslunetinu í landinu sem hefur vaxið frá í vor úr 147 hraðhleðslustöðvum og stefnir í 180 stöðvar og enn fleiri á næstu misserum sem gerir ferðalög um landið á rafbíl auðveldari.
Skv. nýskráningartölum Samgöngustofu um nýskráða nýja og notaða rafbíla voru nýskráðir 176 rafbílar á heimilin í ágúst sem er 46,5% af heildarnýskráningum heimila. Þetta er framhald á jákvæðri þróun eftir lægð fyrri hluta ársins sem náði botni í maí.
 
 

Sama jákvæða þróun er í hlutdeild rafbíla í bílakaupum fyrirtækja og fór hlutdeild rafbíla í 42,9% í ágúst sem er umtalsverð aukning miðað við botninn í maí. Hlutfall rafbíla í kaupum bílaleiga jókst líka umtalsvert og fór í 25,7% en þó er rétt að hafa í huga að þær keyptu fáa bíla í ágúst.

Hlutdeild rafbíla á heildarmarkaði náði hámarki árið 2023 þegar hún var 49,8%. Samdráttur varð hins vegar á fyrri hluta ársins 2024 sem náði botni í vor og hefur verið marktækur jákvæður viðsnúningur síðan. Vísbendingar eru því um að rafbílahlutdeildin fari vaxandi eins og áður segir og að rafbílar fari á næstu misserum yfir helmings hlutdeild og sú þróun haldi áfram næstu árin með auknu úrvali rafbíla.


Vefspjall