Fara í efni

Ritstjóri Kveiks áréttar um sakleysi Brimborgar en skautar að öðru leiti fram hjá gagnrýni

Ritstjóri Kveiks áréttar þó aftur um sakleysi Brimborgar í yfirlýsingunni með orðunum „Kveikur vændi Brimborg ekki um lögbrot“. Ritstjórinn skautar hins vegar að öðru leiti fram hjá gagnrýni Brimborgar er víkur að fullyrðingum um menntun og reynslu viðmælanda, því tímabili sem viðmælandinn vann hjá Brimborg, þeirri staðreynd að hann var yfirborgaður en ekki undirborgaður og lævíslegri notkun á myndmáli, klippingu, framsetningu og efnistökum.

Það er með ólíkindum að lesa svar ritstjóra Kveiks við nýrri yfirlýsingu Brimborgar. Svarið er dæmigert fyrir fólk sem býr við gríðarlegan aðstöðumun við að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í gegnum ríkisstyrktan ríkisfjölmiðil, fólks sem ekki getur viðurkennt mistök og sýnir undanbrögð við leiðréttingar og leiðréttir seint og illa í andstöðu við eigin siðareglur.

Ritstjóri Kveiks áréttar þó aftur um sakleysi Brimborgar í yfirlýsingunni með orðunum „Kveikur vændi Brimborg ekki um lögbrot“. Ritstjórinn skautar hins vegar að öðru leiti fram hjá gagnrýni Brimborgar er víkur að fullyrðingum um menntun og reynslu viðmælanda, því tímabili sem viðmælandinn vann hjá Brimborg, þeirri staðreynd að hann var yfirborgaður en ekki undirborgaður og lævíslegri notkun á myndmáli, klippingu, framsetningu og efnistökum.

Það er sérstaklega ánægjulegt að ritstjóri Kveiks skuli hafa birt samskipti Brimborgar við fréttamann Kveiks sem áttu sér stað viku fyrir þáttinn. Þau samskipti sýna svart á hvítu að allt sem Brimborg hefur haldið fram er rétt. Þau sýna að fréttamaður vissi viku fyrir útsendingu þáttarins um skort á bifvélavirkjamenntun og reynslu viðmælanda og einnig að viðmælandinn vann hjá Brimborg fyrir tveimur árum síðan. Brimborg hafði hins vegar enga hugmynd um samhengi fyrirspurnarinnar við umfjöllun þáttarins. Þetta eru grundvallaratriði og styðja við málflutning Brimborgar um ámælisverð vinnubrögð fréttamanns sem stríða gegn faglegum vinnubrögðum fréttamanna.

Niðurstaðan:

  • Samanburður á launakjörum er gerður í svari Brimborgar fyrir þáttinn í kjölfar fyrirspurnar fréttamanns og þar kemur skýrt fram að viðmælandinn væri yfirborgaður en ekki undirborgaður miðað við taxta ófaglærðra hjá Eflingu enda var hann augljóslega ófaglærður. Eina sem vantar í svar Brimborgar til fréttamanns er að reikna fyrir hann hversu mikið hann var yfirborgaður í prósentum enda reiknað með að fréttamaður gæti gert það sjálfur. Svarið við því er 14,1%
  • Fréttamaður gat þess ekki þótt hann vissi betur skv. svörum Brimborgar að málið væri tveggja ára gamalt eða frá árinu 2016 og fréttamaður vissi að það skipti öllu í því samhengi sem hann ætlaði að nota upplýsingarnar um launakjör hans. Fréttamaður kaus að gera það ekki. Það er ámælisvert og stríðir gegn kröfum um vinnubrögð fréttamanna
  • Fréttamaður fullyrti að viðmælandi sinn væri bifvélavirki með reynslu þó hann vissi um efasemdir Brimborgar og að það skipti öllu máli í samhengi fréttarinnar sem hann var að smíða. Samhengið var Brimborg augljóslega ekki ljóst þegar fréttamaður sendir fyrirspurnina til Brimborgar. Auðvelt var fyrir fréttamann að sannreyna þær upplýsingar og koma réttum upplýsingum á framfæri eins og Brimborg sýndi fram á í fyrstu yfirlýsingu félagsins. Fréttamaður kaus að sannreyna ekki þessar upplýsingar heldur fullyrða á lykilstað í fréttinni að viðkomandi hefði þessa menntun og reynslu þegar það kom skýrt fram í svörum Brimborgar fyrir þáttinn að viðmælandinn væri ekki bifvélavirki né sást það á störfum hans að hann væri með þá menntun eða nokkra reynslu. Það er ámælisvert og stríðir gegn kröfum um vinnubrögð fréttamanna
  • Fréttamaður notar á lævíslegan hátt myndmál, klippingar, framsetningu og efnistök til að spyrða Brimborg við annað umfjöllunarefni í þættinum eins og mansalsfórnarlömb, misnotkun á hælisleitendum og svarta atvinnustarfsemi eins og sést á viðbrögðum áhorfenda sem hafa skrifað um það og Kveikur hefur afrit af. Það er ámælisvert og stríðir gegn kröfum um vinnubrögð fréttamanna

Gagnrýni Brimborgar er því byggð á sterkum rökum en svör ritstjóra Kveiks meira og minna útúrsnúningur og í engu samræmi við siðareglur RÚV. Vinnubrögð fréttamanns og þeirra sem setja saman umfjöllunina eru sérlega ámælisverð og stríða gegn kröfum um vinnubrögð fréttamanna.

Brimborg mun því fara með málið lengra og þeir kostir sem eru í stöðunni eru eftirfarandi:

  1. kæra til siðanefndar RÚV
  2. kæra til Blaðamannafélagsins
  3. opinber kæra til lögreglu
  4. meiðyrðamál
  5. skaðabótamál

Nánari svör við þessari síðari yfirlýsingu ritstjóra Kveiks er að finna hér.

Varðandi fyrstu málsgrein í pósti ritstjóra Kveiks

Það er hlutverk fréttamanna að sannreyna fullyrðingar heimildarmanna sinna eða viðmælenda þegar þær eru notaðar til að gefa í skyn ólögmæta eða óeðlilega hegðun af hálfu annarra. Sérstaklega þegar haft er í huga að umfjöllun er um mjög alvarleg mál, birtist á ríkisfjölmiðli sem vinnur með tilteknar siðareglur þar sem mikilvægi þessa er skýrt tekið fram. Það er ekki gert þrátt fyrir  að augljóslega skipti það máli í samhenginu við annað umfjöllunarefni í þættinum. Þetta er grundvallaratriði góðrar fréttamennsku og með ólíkindum að vanir fréttamenn láti annað frá sér.

Varðandi aðra málsgrein

Hvernig svörin voru dregin saman er einmitt grundavallaratriði í gagnrýni Brimborgar því í því fólst bæði það að mikill munur er á því að um tveggja ára gamalt mál er að ræða (kom alls ekki fram) og að það skipti máli að fréttamaður fullyrti að viðkomandi væri bifvélavirki með reynslu en efasemdir okkar um það birtar í texta í lokin á umfjöllun. Það að fréttamaður fullyrði þetta eins og um staðreynd sé að ræða er auðvitað miklu sterkara gagnvart áhorfendum heldur en textaspjald í lokin sem ekki er einu sinni lesið upp. Þetta sér hver grunnskólakrakki og þaðan af lífsreyndara fólk enda augljóst þegar skoðuðu eru áhrifin af skrifum fólks á internetinu. Þetta er í andstöðu við grundvallaratriði góðrar fréttamennsku.

Varðandi þriðju málsgrein

Það er auðvitað mikilvægt að Kveikur viðurkennir nú í annað sinn að Brimborg er saklaust af lögbrotum. Kveikur gaf þó ótvírætt í skyn lögbrot í umfjölluninni þó ekki hafi því verið beinlínis haldið fram en það var gert í gegnum myndmál, klippingar, framsetningu og efnistök. Þetta veit Kveiksfólk og er sannarlega ógeðfelt að upplifa svona sterkt að fréttamenn á svona valdamiklum miðli skuli svona kaldir stunda vinnubrögð af þessu tagi og síðan verja þau fram í rauðan dauðann. Það er svo augljóst að hver maður sér enda sína viðbrögð um allt internetið dæmi um það og þau nokkur hafa verið send til ritstjóra Kveiks. Hvernig staðið var að því að draga saman svör Brimborgar er hluti af þeirri framsetningu og efnistökum og augljóslega visvítandi gert til að gera meira úr umfjöllun um Brimborg en efni stóðu til og í engu samhengi við aðra umfjöllun í þættinum. Þetta er í andstöðu við grundvallaratriði góðrar fréttamennsku.

Varðandi fjórðu málsgrein

Ritstjóri Kveiks heldur því fram í þessari yfirlýsingu að það sé eðlilegt að fjalla um Brimborg vegna viðmælanda sem heldur því ranglega fram að hann hafi verið undirborgaður sem bifvélavirki með reynslu þegar hann starfaði hjá Brimborg þegar hann er í reynd ófaglærður, ekki með reynslu og yfirborgaður. Og til að bæta gráu ofan á svart að blanda þeirri umfjöllun við aðra sem fjallar um svarta atvinnustarfi, misntotkun hælisleitenda og mansalsfórnarlömb er auðvitað fullkomlega ámælisvert.

Varðandi fimmtu málsgrein

Það er augljóst að svör Brimborgar til fréttamanns áttu að gefa honum tilefni til að sannreyna menntun viðmælandans og reynslu enda augljóst að hvorutveggja skiptir máli þegar um launakjör er að ræða. Sérstaklega þegar tilgangur fréttamanns, að ykkar sögn eftir á, hafi átt að vera eingöngu sá að koma á framfæri því hvort hann hafi verið á eðlilegum launum. Þá verða þessar upplýsingar að liggja fyrir enda skiptir menntun og reynsla máli við mat á launakjörum. Í öðru lagi skiptir öllu máli að launin voru tveggja ára gömul og kom það skýrt fram í svörum Brimborgar en fréttamaður kaus að nefna það ekki. Ritstjóri Kveiks skautar framhjá því grundvallaratriði í þessari síðari yfirlýsingu eins og í þeirri fyrri. Augljóst er öllum að laun hafa hækkað umtalsvert á tímabilinu.

Virðingarfyllst
F.h. Brimborgar
Egill Jóhannsson, forstjóri


Vefspjall