Ráðherrar og þingmenn á fundi bílgreinarinnar um orkuskiptalausnir í vegasamgöngum
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og ráðherrar úr Reykjavíkurkjördæmunum komu í vinnustaða- og bílgreinaheimsókn í Velti, Volvo atvinnutækjasvið Brimborgar, til að fræðast um orkuskiptalausnir í bílgreininni og leiðir í vegasamgöngum til að takast á við markmið Íslands um samdrátt í koltvísýringslosun.
Á fundinum voru hæstvirtir ráðherrar, Guðlaugur Þór Þórðarson, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Birgir Ármannsson, þingmaður og forseti Alþingis og Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður og 4. varaforseti Alþingis. Á móti þeim tóku fulltrúar Bílgreinasambandsins, SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu og bílaumboðanna BL, Öskju, Brimborgar, Suzuki, Vatt og Ísband.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, setti fundinn og framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, María Jóna Magnúsdóttir, flutti erindi um árangursríka rafvæðingu fólksbíla á Íslandi sem m.a. má þakka skilvirkum ívilnunum, frumkvæðis og framsýni bílgreinarinnar auk þess sem hún sýndi fram á í erindi sínu mikilvægi þess að styðja áfram við rafbílavæðinguna. Einnig fór hún inn á hvernig mismunandi geirar atvinnulífsins gætu komið að því að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum t.d. hvað varðar bílaleigubíla, vörubíla í þungaflutningum og vinnuvélar svo tryggja megi að Íslandi verði leiðtogi í orkuskiptum og nái þannig metnaðarfullum loftslagsmarkmiðum sínum.
Seinna erindið flutti forstjóri Brimborgar, Egill Jóhannsson, sem fjallaði um orkuskiptaverkefni Brimborgar í þungaflutningum. Brimborg hefur í samvinnu við Volvo Truck náð samningum við 11 fyrirtæki, leiðtoga í orkuskiptum á Íslandi, um kaup á 23 rafknúnum þungaflutningabílum allt að 44 tonn. Um er að ræða eitt stærsta einstaka skref í að draga úr koltvísýringslosun Íslands í vegasamgöngum en verkefnið verður ítarlega kynnt síðar í þessari viku.
Mjög góð umræða skapaðist á fundinum þar sem ráðherra lagði áherslu á geiranálgun í loftslagsmálum að norrænni fyrirmynd og að við mættum engan tíma missa, að atvinnulífið yrði að stíga stærri og hraðari skref í orkuskiptum. Fulltrúar bílgreinarinnar bentu á að greinin væri tilbúin, hefði stigið mjög stór skref á undanförnum árum sem sýndi sig í að Ísland er í öðru sæti í orkuskiptum í vegasamgöngum. Bílgreinin er hins vegar tilbúin að halda áfram á þessari vegferð og stíga enn stærri skref þannig að Ísland geti sett sér metnaðarfullt tunglsskotsmarkmið í orkuskiptum í vegasamgöngum. Bentu fulltrúar bílgreinarinnar á að þar skipti m.a. miklu máli að tæknin til orkuskipta væri komin en um leið væri mikilvægt að fyrirsjáanleiki ríkti um gjalda- og ívilnanastefnu stjórnvalda gagnvart rafknúnum ökutækjum.
Það var skemmtilegt að heimsóknin er daginn fyrir umhverfisdag atvinnulífsins 2022 sem verður haldinn miðvikudaginn 5. október undir yfirskriftinni Auðlind vex af auðlind. Dagurinn er árviss viðburður og að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Án efa mun mikilvægi bílgreinarinnar í orkuskiptum í samgöngum og þær orkuskiptalausnir sem bílgreinin býður upp á bera á góma á umhverfisdeginum.
Bílaumboðin BL, Askja, Brimborg, Suzuki, Vatt og Ísband eru aðilar að SVÞ- Samtökum verslunar og þjónustu og Bílgreinasambandinu.