Öll ökutæki verða 100% rafmagn í nýrri orkuspá Orkustofnunar
Í frétt á vef Orkustofnunar sem birtist 3. apríl leynist stórfrétt. Raforkuspá Orkustofnunar er opinber spá um hverju má búast við í raforkuþörf til ársins 2050 en forsendur slíkra spáa eru aðvitað lykilatriði. Þar er nú reiknað með að öll ökutæki, þar á meðal vörubílar og hópferðabílar, verði 100% rafknúin.
Spáin er hér https://orkustofnun.is/orkustofnun/frettir/endurreiknud-raforkuspa
Brimborg tilkynnti í október 2022 um komu Volvo rafmagnsvörubíla til þungaflutninga og annarra margvíslegra nota og sýndi fram á að rafvæðing stórra ökutækja væri raunhæf.
Í kjölfarið hefur Orkustofnun endurskoðað forsendur raforkuspár og reiknar nú með í grunnspá að öll nýskráð ökutæki árið 2040, meðal annars vörubílar og hópferðabílar, verði rafknúin. Árið 2030 verði allir nýskráðir fólksbílar rafknúnir.
Raforkuspá er leiðbeinandi fyrir alla á raforkumarkaði og við orkuskiptin er hún einnig leiðbeinandi fyrir aðra sem hyggjast taka þátt í orkuskiptunum. Það á við um innflutningsaðila ökutækja, hleðslubúnaðar, búnaðar fyrir raforkumannvirki, notendur ökutækja og stjórnvöld sem stýra orkuskiptunum.
Einnig er um að ræða lykilákvörðun að stýra orkuskiptunum eins mikið og hægt er í rafmagn beint á ökutæki sem á reyndar einnig við önnur tæki eins og skip, flugvélar og önnur tæki. Ástæðan er framúrskarandi orkunýtni umfram alla aðra orkukosti. Það er einstaklega hagkvæmt fyrir þjóðarbúið en einnig alla einstaklinga og öll fyrirtæki.
Orkuskiptin eru einstakt tækifæri fyrir Íslendinga og forgangsröðun íslenskrar raforku til orkuskipta er því lykilatriði.