Fara í efni

Kveikur dregur í land en svarar ekki grundvallaratriðum í yfirlýsingu Brimborgar

Ritstjóri og fréttamaður fréttaskýringarþáttarins Kveiks á RÚV sendu frá sér yfirlýsingu síðastliðinn föstudag sem svar við yfirlýsingu Brimborgar sama dag. Þar segir efnislega að Brimborg braut engin lög og að meginástæðan fyrir því að haft var samband við forstjóra Brimborgar við vinnslu þáttarins var til að fá skoðun hans á því hvort laun eins viðmælanda þáttarins væru ásættanleg. Þessi skýring er áhugaverð en algerlega á skjön við framsetningu, myndmál, klippingar og efnistök umfjöllunarinnar um Brimborg. Og yfirlýsing Kveiks tekur alls ekki á þeim atriðum sem voru harðlega gagnrýnd í yfirlýsingu Brimborgar

Ritstjóri og fréttamaður fréttaskýringarþáttarins Kveiks á RÚV sendu frá sér yfirlýsingu síðastliðinn föstudag sem svar við yfirlýsingu Brimborgar sama dag. Þar segir efnislega að Brimborg braut engin lög og að meginástæðan fyrir því að haft var samband við forstjóra Brimborgar við vinnslu þáttarins var til að fá skoðun hans á því hvort laun eins viðmælanda þáttarins væru ásættanleg.

Þessi skýring er áhugaverð en algerlega á skjön við framsetningu, myndmál, klippingar og efnistök umfjöllunarinnar um Brimborg. Og yfirlýsing Kveiks tekur alls ekki á þeim atriðum sem voru harðlega gagnrýnd í yfirlýsingu Brimborgar:

1) Viðmælandi Kveiks vann hjá Brimborg árið 2016 og í sex vikur. Þetta kom ekki fram í þættinum en fréttamanni var kunnugt um það enda kom það fram í skriflegu svari Brimborgar til hans viku fyrir útsendingu þáttarins. Hann kaus að sleppa því að birta þessar upplýsingar.

2) Maðurinn er ekki bifvélavirki og ekki með þá reynslu sem lagt var upp með. Það kom fram í yfirlýsingu Brimborgar og líka í svari Brimborgar til fréttamanns viku fyrir útsendingu þáttar. Fréttamaður vann ekki grundvallar heimavinnu að sannreyna heimild sína og kaus að sleppa því að birta þessar upplýsingar.

3) Í þessu ljósi þ.e. skv. liðum 1) og 2) þarf að horfa á kr. 1700 á tímann þ.e. þetta var fyrir tveimur árum og fyrir ófaglærðan starfsmann. Sá taxti sem viðmælandi Kveiks starfaði á fyrir tveimur árum var 14,1% hærri en taxti Eflingar á þeim tíma fyrir ófaglærðan starfsmann með 5 ára reynslu. Um þetta var fréttamanni kunnugt enda kom það fram í skriflegu svari Brimborgar til fréttamanns viku fyrir útsendingu þáttarsins.

4) Lög um keðjuábyrgð voru ekki til staðar fyrir tveimur árum en þau voru sett í vor. Það hefði reyndar ekki skipt neinu máli því viðmælandi Kveiks fékk greitt í samræmi við menntun, reynslu og getu, reyndar nokkuð hærra sbr. lið 3.

5) Í yfirlýsingu Kveiks var engu svarað um lævíslega notkun á myndmáli og klippingum og Brimborg þannig spyrt við margvísleg brot á vinnumarkaði. Þátturinn var um 44 mínútna langur og var umfjöllun um Brimborg í 60 sekúndur sett í samhengi við misnotkun og brot á réttindum erlendra starfsmanna, hælisleitenda, mansalsfórnarlamba og svarta atvinnustarfsemi. Í raun var myndefnið alls ekki í samræmi við umfjöllun þáttarins og sérstaklega þegar skoðuð er yfirlýsing Kveiks um að ástæðan fyrir umfjöllun um Brimborg hafi verið til að fá skoðun forstjóra Brimborgar á því hvort laun eins viðmælanda í þættinum hafi verið ásættanleg.

6) Brimborg sýnir samfélagslega ábyrgð, við tökum hana mjög alvarlega í samræmi við kjörorð okkar, öruggur staður til að vera á. Það endurspeglast í svörum stærstu verkalýðsfélaga starfsmanna Brimborgar sem í vikunni, í kjölfar þáttarins, staðfestu framúrskarandi vinnubrögð milli Brimborgar og þeirra og að engin mál væru uppi á borðum milli Brimborgar og félaganna. Um eru að ræða VR, Eflingu og FIT (félag iðn- og tæknigreina).

7) Með umfjöllun sinni um Brimborg brutu starfsmenn Kveiks siðareglur RÚV. Það kemur fram í yfirlýsingu Brimborgar og Kveikur svarar ekki í yfirlýsingu sinni. Ritstjórn Kveiks braut svo enn og aftur gegn siðareglum RÚV með einhliða birtingu yfirlýsingu sinnar og með því að beita undanbrögðum. Athugasemdir vegna yfirlýsingar Kveiks hafa verið sendar á ritstjóra Kveiks og útvarpsstjóra á föstudagskvöld 5. okt. Ítrekað hafa verið sendar nýjar upplýsingar til ritstjóra Kveiks og útvarpsstjóra um helgina en engin svör borist til Brimborgar.

Málsgreinar í siðareglum RÚV sem hafa verið brotnar eru eftirfarandi:

"Starfsfólk kappkostar að vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð, gegnir störfum sínum af metnaði, heiðarleika og virðingu og hefur í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi."

"Starfsfólk sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni eða dagskrárgerð sannreynir að heimildir séu réttar og að sanngirni sé gætt í framsetningu og efnistökum. Þetta á sérstaklega við þegar upplýsingar geta verið litaðar af persónulegum hagsmunum eða geta verið til þess fallnar að skaða aðra. Gildir þá einu hvort í hlut eiga einstaklingar, fyrirtæki, samtök, félög eða annað."

"Starfsfólk stendur vörð um trúverðugleika stofnunarinnar. Staðreyndavillur og mistök, sem varða umfjöllun eða samskipti við almenning, eru undanbragðalaust leiðrétt eins fljótt og mögulegt er."

Lögmaður Brimborgar skoðar nú hvort fjölmiðlalög og hegningarlög hafi einnig verið brotin við umfjöllun um Brimborg í þættinum. Hér má t.a.m. nefna 26. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 sem fjallar um að fjölmiðar skuli gæta hlutlægni og nákvæmni í flutningi frétta og fréttatengds efnis og jafnframt gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram. Þá kveður 36. gr. sömu laga á um að aðilar sem telja að þeir geti orðið fyrir tjóni vegna þess að rangt hefur farið með staðreyndir í fjölmiðli, einkum á æru eða orðspori, eigi rétti til andsvara og að þau andsvör eigi að birta í sama miðli þannig að eftir því verði tekið.

Þá má einnig benda á ýmis ákvæði 25. kafla almennra hegningarlaga sem fjalla um ærumeiðingar ofl., þ.á.m. rógburð. Þar er sérstaklega haft í huga ákvæði 233. gr. a. sem fjallar um rógburð, 234. gr. um ærumeiðingar og 235. gr. um aðdróttanir en Brimborg mun fela lögmanni sínum að heimfæra umrædda háttsemi undir rétt lagaákvæði þegar þar að kemur.

Þegar lögbrot hefur verið staðfest, og saknæmi liggur fyrir, líkt og lýst hefur verið í fyrri póstum til Kveiks, þá getur það leitt til bótaskyldu. Einnig getur refsiábyrgð legið við framangreindum brotum.

Kveikur hefur fengið gögn sem staðfesta að Brimborg hefur orðið fyrir álitshnekki vegna óvandaðrar og ranglátrar umfjöllunar Kveiks. Allar líkur eru á því að það leiði til tjóns fyrir fyrirtækið þar sem orðspor og viðskiptavild eru ein helsta eign þess. Brimborg hefur reynt og mun reyna áfram að takmarka tjón sitt vegna þess en nú er spurning hvað RÚV og Kveikur ætla að gera til þess að takmarka tjónið og þar með ábyrgð sína. Best er að það verði gert með opinberri afsökunarbeiðni, sem verður að vera gerð með viðeigandi og áberandi hætti.

Virðingarfyllst
F.h. Brimborgar
Egill Jóhannsson, forstjóri


Vefspjall