Fara í efni

Engin vatnstjón á rafbílum frá Brimborg

Engin vatnstjón á rafbílum frá Brimborg
Engin vatnstjón á rafbílum frá Brimborg.

Í ljósi mikillar umræðu og fjölda fyrirspurna viðskiptavina Brimborgar vegna vatnstjóna á rafbílum vill Brimborg koma eftirfarandi á framfæri.

Brimborg er umboðsaðili 7 bílaframleiðanda sem allir bjóða upp á rafbíla. Frá upphafi hafa verið nýskráðir hér á landi 1009 rafbílar, nýir og notaðir frá þessum bílaframleiðendum. Engar tilkynningar hafa borist Brimborg um vatnstjón á þessum rafbílum né hafa rafbílar komið inn á þjónustuverkstæði Brimborgar vegna vatnstjóns.

Rafbílar sem Brimborg býður til sölu eru prófaðir samkvæmt ströngustu kröfum og íhlutir eru hannaðir til að standast útsetningu fyrir vatni samkvæmt alþjóðlegum stöðlum IP67. Nánar tiltekið mun drifrafhlaðan, rafmótorar og raflagnir þola útsetningu fyrir vatni, í takmarkaðan tíma, á meðan ekið er í gegnum grunnt standandi vatn, til dæmis í kjölfar flóðs eða mikillar rigningar. Hins vegar, ef ökutækið er skilið eftir í kyrrstöðu í vatni, er mælt með því að ökutækið sé þurrkað og það skoðað af viðurkenndum þjónustuaðila áður en það er tekið í notkun aftur.

Brimborg býður 5 ára – 7 ára ábyrgð á rafbílum og 8 ára ábyrgð á drifrafhlöðu rafbíla ef bilun verður í bíl sem rekja má til framleiðslugalla bílsins.

Almennt um akstur í vatni og vaðdýpt bíla

Akstur í vatni þarf alltaf að fara fram með mikilli varúð óháð því hver orkugjafi bílsins er, hvort sem um er að ræða akstur yfir ár, stöðuvatn eða í gegnum vatnselg. Til að draga úr hættu á tjóni þegar ekið er í gegnum vatn skal hafa eftirfarandi að leiðarljósi:

  • Leyfð vaðdýpt bílsins skiptir máli og er mismunandi eftir bílgerðum en oft er miðað við að vatn fari ekki upp fyrir síls bílsins. Það þýðir að vatnshæð má ekki vera hærri en gólf bílsins sem er mismunandi eftir veghæð bílsins.
  • Ef mögulegt er, athugaðu dýpið á dýpsta stað áður en þú ekur í gegnum vatnið. Gæta skal sérstakrar varúðar þegar ekið er yfir ár.
  • Miðaðu akstur í vatni við gönguhraða.
  • Ekki stöðva bílinn í vatni. Keyrðu varlega áfram eða bakkaðu bílnum strax aftur upp úr vatninu.
  • Mundu að öldur sem myndast af umferð á móti geta farið upp fyrir gólfið í bílnum.
  • Forðastu að aka í gegnum saltvatn (tæringarhætta).

Eftir að ekið hefur verið í gegnum vatn skal stíga létt á bremsufetil til að athuga hvort full bremsuvirkni sé til staðar. Vatn og leðja sest á bremsubúnað sem getur valdið takmarkaðri bremsuvirkni en bremsubúnaðurinn hreinsar sig við hemlun.

Um Brimborg

Brimborg er umboðsaðili fyrir Volvo, Polestar, Ford, Mazda, Opel, Citroën og Peugeot hefur starfað í bílgreininni í 58 ár eða síðan 1964. Hjá félaginu starfa 230 manns sem hafa áratuga reynslu í bílgreininni. Brimborg býður úrval rafbíla frá öllum sínum framleiðendum. Fyrstu tvo mánuði ársins 2022 voru rafbílamerki Brimborgar samanlagt í öðru sæti á rafbílamarkaði með 24% markaðshlutdeild. Margvíslegar upplýsingar um rafbíla er að finna á rafbílavef Brimborgar.

Nánari upplýsingar má fá á þjónustuborði Brimborgar í gegnum netfangið brimborg@brimborg.is, netspjall á www.brimborg.is eða í síma 5157000.


Vefspjall