Brimborg reisir stærsta sólarorkuver á Íslandi og fyrsta í Reykjavík fyrir sýningarsal Polestar rafbíla
Brimborg mun í vor opna nýjan Polestar Destination sýningarsal fyrir Polestar rafbíla og á þaki hans verður reist stærsta sólarorkuver á Íslandi og það fyrsta í Reykjavík og mun orkuverið framleiða um 50% af reiknaðri orkuþörf sýningarsalarins í kWst á ársgrundvelli. Sýningarsalurinn opnar í húsnæði á lóð Brimborgar við Bíldshöfða en húsnæðið hefur allt verið endurnýjað með það í huga að spara raforku m.a. með LED ljósum, ljósastýringu og orkunýtnum raftækjum.
Brimborg fyrst bíla- og atvinnutækjaumboða og fyrst ökutækjaleiga með sjálfbærniuppgjör
Brimborg er fyrst bíla- og atvinnutækjaumboða á Íslandi og fyrsta ökutækjaleigan á Íslandi að gefa út heildstætt sjálfbærniuppgjör og er þetta stóra vistskref í samræmi við umhverfisstefnu Brimborgar, Visthæf skref, sem innleidd var árið 2007 og er í samræmi við kjörorð félagsins, Öruggur staður til að vera á, sem kynnt var til sögunnar árið 2003.
Brimborg gengur lengra en önnur fyrirtæki á Íslandi og gefur út sjálfbærniuppgjör vegna rekstrarársins 2021 fyrir umfang 1 og 2 og umtalsverðan hluta umfangs 3, m.a. aðkeyptan flutning erlendis frá, fyrir öll rekstrarsvið félagsins á öllum starfsstöðvum um allt land með ítarlegum upplýsingum um áhrif starfsemi sinnar á umhverfið, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS).
Brimborg með áherslu á orkusparnað og staðbundna orkuframleiðslu
Sjálfbærniuppgjörið upplýsir m.a. um umhverfisáhrif starfsemi Brimborgar og samkvæmt umhverfisstefnu félagsins, Visthæf skref, þá skal unnið skipulega að því að draga úr þessum áhrifum. Það gerir Brimborg nú og stígur enn eitt vistskrefið sem byggir á auknum orkusparnaði annars vegar og hins vegar virkjun sólarinnar til raforkuframleiðslu.
Orkuskiptin eru gríðarlega mikilvæg fyrir Íslendinga
Orkuskiptin eru gríðarlegt hagsmunamál fyrir Íslendinga og þar þurfa fyrirtæki að leggja sitt af mörkum enda ávinningur mikill af því að vinna markvist að orkuskiptum og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku. Stór skref Brimborgar til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis, nýta betur núverandi orku og með staðbundinni raforkuframleiðslu hafa margvísleg jákvæð áhrif og skapar fordæmi fyrir önnur fyrirtæki að fylgja í fótspor Brimborgar.
- Sparnaður í raforkunotkun með LED ljósum, ljósastýringu, orkusparandi tækjum og öðrum aðgerðum gefur svigrúm til að nota raforkuna sem sparast í almenna kerfinu til orkuskipta og frestar þörf á nýjum virkjunum
- Staðbundin framleiðsla með sólarorku gefur svigrúm til að nota raforkuna sem sparast í almenna kerfinu til orkuskipta og frestar þörf á nýjum virkjunum
- Samdráttur í notkun á jarðefnaeldsneyti skapar jákvæð umhverfisáhrif því losun Brimborgar af koltvísýringsígildum (CO2í) minnkar sem hefur jákvæð loftslagsáhrif
- Vistskref Brimborgar er framlag til orkuöryggis íslensku þjóðarinnar með raforkusparnaði, staðbundinni framleiðslu og með minni kaupum á jarðefnaeldsneyti
- Minni notkun jarðefnaeldsneytis sparar erlendan gjaldeyri
- Þegar ekki er lengur þörf á jarðefnaeldsneyti hætta erlendar verðsveiflur á olíuverði að hafa áhrif á verðbólgu á Íslandi sem er hagsmunamál fyrir heimilin auk þess sem íslenskt rafmagn sem orka á bíl heimilisins er ódýrara og verðlag stöðugra
- Fjármunir sparast í rekstri Brimborgar sem stuðlar að lægra bílverði og meiri arðsemi félagsins
Brimborg fjárfesti yfir hálfan milljarð í sjálfbærniverkefnum árið 2021
Fjárfestingar í útrýmingu jarðefnaeldsneytis, auknum orkusparnaði og uppbyggingu sólarorkuvers er liður í fjárfestingum Brimborgar í sjálfbærni. Á árinu 2021 fjárfesti Brimborg fyir 520 milljónir í margvíslegum sjálfbærniverkefnum. Þar má nefna uppsetningu LED ljósa í fasteignum félagsins, uppsetningu fjölda hleðslustöðva á starfsstöðvum sínum, bæði til hæghleðslu (AC) og hraðhleðslu (DC) og til kaupa á bílum sem ganga fyrir rafmagni svo fátt eitt sé nefnt. Haldið verður áfram á sömu braut á árinu 2022.
Orkusparnaður og staðbundin orkuframleiðsla verndar náttúru með minni þörf á virkjunum
Mikil umræða hefur verið um nauðsyn þess að virkja meira en með átaki í orkusparnaði og staðbundinni orkuframleiðslu, t.d. frá sól eða vindi, er hægt að draga mjög úr virkjanaþörf. Ef öll fyrirtæki myndu fylgja í fótspor Brimborgar væri hægt að nota orkuna sem sparast til orkuskipta fyrir rafbíla og tengiltvinnbíla án þess að virkja meira.
Stærsta sólarorkuver á Íslandi og það fyrsta í Reykjavík verður ræst í vor
Sólarorkuframleiðsla á Íslandi er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann enda Íslendingar gjarnir á að kvarta yfir sólarleysi. Við ítarlegan undirbúning Brimborgar að uppsetningu sólarorkuversins á þaki Polestar Destination sýningarsalarins kom á óvart hversu mikil raforkuframleiðslan er ef notuð er nýjasta tækni og rétt er staðið að málum.
Sólarsellur verða sífellt betri og nýting batnar stöðugt með nýrri tækni og verð þeirra fer lækkandi eftir því sem framleiðsla á sólarsellum eykst í heiminum. Uppsett afl sólarorkuvera á heimsvísu setti nýlega met þegar það fór yfir 1 TW. Evrópusambandið framleiðir nú um 3,6% af sinni raforku með sólarorku, og þar er Þýskaland í fararbroddi, og Bretland er með um 4,1% af sinni raforkuframleiðslu frá sólarorku.
Sólarorkuver nýta ekki eingöngu beina geisla sólar heldur einnig óbeina geislun, birtuna frá sólinni og þar kemur Ísland sterkt inn með sína löngu daga þar sem mögulegt er hluta úr ári að framleiða rafmagn nánast allan sólarhringinn. Auk þess kemur íslenski kuldinn, aldrei þessu vant, sér vel því á Íslandi eru engar líkur á að sólarsellurnar ofhitni með tilheyrandi orkutapi.
Við skoðun Brimborgar kom í ljós að sólarorka nýtist best í rekstur fyrirtækja frekar en heimila. Sólarorkuframleiðsla á þaki bygginga fyrirtækja er einstaklega hagkvæm því orkan nýtist beint í reksturinn þar sem raforkunotkun fyrirtækja fer nánast öll fram yfir daginn þegar birtu nýtur en því er öfugt farið á heimilum. Kvöld og næturframleiðslan er minni en dugar hluta úr ári til að halda næturlýsingu og lágmarkskerfum fyrirtækja í gangi en á daginn þegar raforkunotkun rekstrarins eykst er raforkuframleiðslan einnig á hápunkti. Sólarorkuver á þaki bygginga fyrirtækja taka auðvitað ekkert auka landrými og ganga því ekki á viðkvæma náttúru Íslands og sjónmengun er nánast engin vegna heppilegrar staðsetningar.
Á hápunkti framleiðslunnar þegar dagar eru lengstir vor og sumar þá mun sólarorkuverið framleiða meiri orku en Polestar Destination sýningarsalurinn mun þurfa á að halda en engin raforka frá verinu mun fara til spillis. Lausnin á því er einföld þar sem framleiðslan fer fram á starfsvæði Brimborgar þar sem margvíslegur annar rekstur kallar á raforku. Umframorkan verður þá notuð í öðrum byggingum á svæðinu og því þarf ekki að fjárfesta í dýrum geymslulausnum fyrir raforku. Brimborg mun þó einnig setja upp búnað sem gerir félaginu kleift að selja umframorku til baka inn á almenna dreifikerfi raforku ef á því þyrfti að halda t.d. á þeim dögum eins og sunnudögum eða opinberum frídögum sem lítil sem engin starfsemi er hjá Brimborg.
Sólarorkuver Brimborgar verður það stærsta á Íslandi hvort sem mælt er miðað við uppsett afl í kW, fjölda sólarsella, fjölda fermetra sólarsella eða reiknaða raforkuframleiðslu í kWst. Uppsett afl þess er ríflega 26 kW en um er að ræða 70 sólarsellur þar sem hver þeirra er 375 W og þekja þær 130 fermetra á þaki sýningarsalarins. Sólarsellurnar eru með 3,2 mm hertu hlífðargleri með glampavörn. Því er reiknað með að raforkuframleiðslan geti numið allt að 24.000 kWst á ári sem er um 50% af áætlaðri orkuþörf starfsemi Polestar á Íslandi. Áætlað er að framleiðslan muni hefjast nú í vor 2022.
Frá sólarorkuverinu kemur jafnstraumur (DC) eins og er í rafhlöðum og rafbílum en honum er síðan umbreytt með straumbreyti í riðstraum (AC) eins og er í húsum.
BREEAM umhverfisvottaður sýningarsalur og umhverfismiðuð hönnun frá upphafi
Mjög hagkvæmt var að fara í orkusparnaðar og orkuframleiðsluverkefnið þar sem það var strax haft í huga á hönnunarstigi. Polestar sýningarsalurinn verður í húsnæði sem Brimborg notaði áður undir aðra starfsemi en húsnæðið þurfti að endurhanna fyrir Polestar. Strax var lögð áhersla á að húsnæðið fengi BREEAM umhverfisvottun og því var strax hugsað út í sparnað í raforkunotkun t.d. með LED lýsingu, ljósastýringu, betri einangrun útveggja og einangrandi gler til að spara hita auk þess sem hugað var að orkuframleiðslu á staðnum. Þetta gerði það að verkum að kostnaður við BREEAM vottunarverkefnið var muni minni en ef þessi mál hefðu verið hugsuð eftir á sem þýðir að fjárfestingin verður fljótt mjög arðbær.
Með því að hanna út frá umhverfissjónarmiðum þá er hægt að draga úr kolefnisspori húsnæðis og rekstrar og öðrum umhverfisáhrifum, hvort sem er vegna losunar gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu byggingarefna, notkunar orkugjafa á byggingartíma, viðhaldi og einnig vegna orkunotkunar og viðhaldsþarfar við reksturinn til framtíðar.
BREEAM vistvottunarkerfið er alþjóðlegt en var stofnað í Bretlandi árið 1990. Brimborg BREEAM vottar endurgerð byggingar en þetta vottunarkerfi er líka hægt að nota fyrir nýbyggingar, byggingar í notkun (BREEAM in use) og skipulag svæða (BREEAM communities). Við BREEAM vottun Brimborgar á Polestar Destination sýningarsalnum er m.a. horft til:
- Umhverfisstjórnunar á byggingar- og rekstrartíma
- Góða innivist sem tekur m.a. til hljóðvistar, inniloftgæða og lýsingar
- Góða orkunýtni og vatnssparnað
- Val á umhverfisvænum byggingarefnum
- Úrgangsstjórnun á byggingar- og rekstrartíma
- Viðhald vistfræðilegra gæða nánasta umhverfis
- Lágmörkun ýmis konar mengunar frá byggingu t.d. varðandi frárennsli og ljósmengun
Um Brimborg
Brimborg er eitt stærsta bíla- og atvinnutækjaumboð landsins og býður upp á fjölda rafmagnaðra fólksbíla, jeppa og sendibíla frá sjö bílaframleiðendum, til kaups eða leigu, auk þess sem Veltir, atvinnutækjasvið Brimborgar, mun fljótlega bjóða rafknúna vörubíla, rútur og vinnuvélar til sölu. Brimborg er í fararbroddi bíla- og atvinnutækjaumboða í sjálfbærnimálum og leggur gríðarlega áherslu á að draga úr áhrifum félagsins á umhverfi sitt með skýrri umhverfisstefnu, útgáfu sjálfbærniskýrslu sem lýsir áhrifum Brimborgar á umhverfi sitt og mikilli áherslu á innflutning og sölu rafmagnaðra fólksbíla, jeppa, sendibíla, vörubíla, hópferðabíla og vinnuvéla.
Um Polestar
Sænska fyrirtækið Polestar var stofnað sem nýr og sjálfstæður framleiðandi hágæða rafbíla með afburða aksturseiginleika árið 2017. Það var stofnað af Volvo Cars og Geely Holding og nýtur tæknilegrar og verkfræðilegrar samvirkni við Volvo Cars og ávinnings af verulegri stærðarhagkvæmni gegnum tengsl sín við Volvo.
Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Gautaborg í Svíþjóð og bílarnir eru nú komnir í umferð á mörkuðum víðs vegar um Evrópu, Norður-Ameríku, Kína og í Asíulöndum við Kyrrahaf. Fyrir árið 2023 áætlar Polestar að bílar þess verði í boði á 30 mörkuðum. Um þessar mundir eru Polestar-bílar framleiddir í tveimur verksmiðjum í Kína, en frekari framleiðsla er fyrirhuguð í Bandaríkjunum.
Á Íslandi er Polestar hjá Brimborg sem hefur opnað Polestar Space sýningarsal við Bíldshöfða 6 í Reykjavík. Framtíðar Polestar Destination sýningarsalur opnar á sama stað snemma á öðrum fjórðungi ársins 2022.
Polestar hefur framleitt tvo rafbíla með afburða aksturseiginleika. Polestar 1 var framleiddur á árunum 2019 til 2021 í takmörkuðu magni sem GT tengiltvinnbíll með afburða aksturseiginleika með yfirbyggingu úr koltrefjum, 609 hö, 1.000 Nm og rafmagnsdrægni upp á 124 km (WLTP) – mesta tvinnbíladrægni í heimi.
Polestar 2, hágæða rafbíll með afburða aksturseiginleika, er fyrsti fjöldaframleiddi rafbíll fyrirtækisins. Á Íslandi er Polestar 2 í boði annars vegar með tveimur rafmótorum, stærri 78 kWh drifrafhlöðu og allt að 300 kW / 408 hestöflum og 660 Nm togi og hins vegar með einum rafmótor og allt að 170 kW / 221 hestöfl og 330 Nm togi sem drífur framhjólin en stærð drifrafhlöðu er einnig 78 kWh. Um mitt ár 2022 verður þriðja útgáfan af Polestar 2 í boði með einum rafmótor, framdrifi og 69 kWh drifrafhlöðu.
Frá árinu 2022 áætlar Polestar að setja á markað einn nýjan rafbíl á ári og byrjar með Polestar 3 árið 2022 – fyrsta rafknúna jeppa fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að Polestar 4 komi í kjölfarið árið 2023, minni rafmagnsjeppi með afburða aksturseiginleika.
Árið 2024 er ráðgert að setja á markað Polestar 5 rafknúinn 4 dyra GT bíl með afburða aksturseiginleika sem er afurð Polestar Precept – hugmyndabílsins sem Polestar kynnti árið 2020 sem sýnir framtíðarsýn vörumerkisins hvað varðar hönnun, tækni og sjálfbærni. Þar sem fyrirtækið leitast við að draga úr loftslagsáhrifum sínum með hverri nýrri gerð, stefnir Polestar á að framleiða raunverulega loftslagshlutlausan bíl fyrir árið 2030.
Í byrjun mars 2022 sýndi Polestar annan hugmyndabíl sinn, Polestar O₂ rafknúinn roadster. Polestar O₂ byggir á þeirri hönnun, tækni og sjálfbærni metnaði sem Precept lagði línurnar með og sýnir framtíðarsýn vörumerkisins fyrir sportbíla. Harðþaksblæjubíllinn sýnir þróun þeirrar einstöku hönnunarnálgunar sem fyrst var sýnd með Precept og leggur áherslu á kraftmikla akstursupplifun. Hugmyndabíllinn þróar enn frekar áhersluna á sjálfbærni og tækni, sem miðar að aukinni hringrás.