Stefnir í metár í bílasölu - viðtal við Egil Jóhannsson, forstjóra Brimborgar
Stefnir í metár í bílasölu
Viðtal sem birtist í Viðskiptahluta Morgunblaðsins, 6.júlí 2017. Viðtalið tók Helgi Júlíus Vífilsson, blaðamaður MBL.
Það stefnir í að aldrei hafi verið seldir jafn margir nýir bílar og í ár. Sala lúxus bíla gengur sömuleiðis vel en hún jókst um 23% á fyrstu mánuðum ársins á milli ára að frátalinni sölu til bílaleiga. Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, segir að mögulega muni bílaleigur kaupa helmingi færri bíla á næsta ári vegna erfiðari aðstæðna í ferðaþjónustu. Að sama skapi telur hann líklegt að bílaleigum muni fækka.
Ef fram fer sem horfir verður árið 2017 líklega hið besta í bílasölu til þessa, að sögn Egils Jóhannssonar, forstjóra Brimborgar. Við reiknum með að í ár seljist 22 þúsund bílar. Það yrði 8% vöxtur á milli ára. En í fyrra var einmitt næststærsta árið í bílasölu, segir hann. Það ár jókst salan um 32% á milli ára. Árið 2005 var hið fengsælasta fram að þessu en þá seldust 20.500 bílar. Munurinn er hins vegar sá að árið 2005 var hlutfall bílaleigubíla af markaðnum 9% en það er nú 42%. Fáir markaðir í heiminum selja svo hátt hlutfall til bílaleiga. Það getur ekki gengið til lengdar, segir hann. Í venjulegu árferði er talað um að 12-14 þúsund bílar seljist. Það er því verið að selja átta til tíu þúsund fleiri bíla en í hefðbundnu árferði. Hann segir að salan á lúxusbílum gangi vel. Á fyrstu mánuðum ársins var um 23% meiri sala en á sama tíma í fyrra að frátalinni sölu til bílaleiga.
Hann segir að á árunum eftir hrun hafi fá fyrirtæki fjárfest í bifreiðum og vinnuvélum. Bílarnir voru keyrðir út. En fyrirtæki eru farin að festa kaup á atvinnutækjum og bílum á nýjan leik. Salan gekk vel í fyrra og í ár byrjar salan með hvelli, segir hann. Kaup fyrirtækja á bílum í fyrra jókst um 29% og keyptu þau rúmlega 3.900 bíla. Til samanburðar keyptu einstaklingar tæplega 7.900 bíla í fyrra.
Bílaleigur kaupi 50% færri bíla
Ég reikna með að bílaleigur muni halda að sér höndum í kaupum á nýjum bílum á næsta ári. Mögulega munu bílaleigur kaupa 40-50% færri bíla á næsta ári, segir hann. Bílaleigur muni ekki lengur njóta afsláttar á aðflutningsgjöldum sem eru með því hæsta sem þekkist, gengið sé orðið ansi sterkt og farið sé að hægjast á vexti ferðamannastraumsins. Að sama skapi telur hann líklegt að við þær aðstæður muni bílaleigum fækka, þær séu nú tæplega 150 og reki 24 þúsund bíla. Við höfum gætt þess að treysta ekki um of á sölu til bílaleiga. Við stefnum að því að hlutfallið af sölu til bílaleiga sé að jafnaði um helmingur af markaðshlutdeild okkar til einstaklinga. Hlutdeild okkar til einstaklinga var 19% í fyrra og við vildum því hafa hlutdeild til bílaleiga um 10%. Það gekk eftir í fyrra þegar hún var 11% og árið áður um 10%, segir hann. Samkvæmt ársreikningi Brimborgar var 32% af sölu á nýjum bílum fyrirtækisins til bílaleiga. Við njótum góðs af því að hafa umboð fyrir fimm bílamerki og því getum við dreift sölu til bílaleiga vel á milli merkja og undirtegunda. Við höfum það að leiðarljósi til að tryggja að markaðurinn með notaða bíla sé með sem besta móti. Þá sitjum við ekki uppi með þúsund bíla af sömu tegund sem þarf að selja hratt. Sum bílaumboð hafa ekki gætt sín á þessu. En það skiptir sköpum að huga vel að heildarmyndinni til lengri tíma í sölu til bílaleiga, segir Egill.
Minni skellur næst
Hann vekur athygli á því að í gegnum tíðina hafi bílasala einkennst af því að salan gangi vel í þrjú til fimm ár en þá kemur harður skellur. Aftur á móti tel ég að núverandi vaxtarskeið muni vara lengur vegna þess að síðasta niðursveifla var mun dýpri en vanalega og því hafði safnast upp meiri endurnýjunarþörf. Enn fremur tel ég að vegna þess að skuldsetning heimila og fyrirtækja er hóflegri nú en fyrir tíu árum, að þá má telja líklegt að niðursveiflan verði minni, segir Egill.
Helmingi færri notaðir bílar
Hann leggur ríka áherslu á að notaðir bílar á lager verði ekki í eigu fyrirtækisins lengur en í þrjá mánuði og að notaðir bílar séu teknir upp í á skynsamlegu verði. Við höfum aldrei selt jafn marga nýja bíla og í ár og í fyrra. Við eigum 180 notaða bíla sem er helmingi minna en fyrir tíu árum. Ef ekki er fylgst með þessu öllum stundum geta notaðir bílar í eigu bílaumboða hrannast upp. Þannig er mál með vexti að í gegnum tíðina hafa umboð öðlast markaðshlutdeild með því að vera glannaleg í að taka bíla upp í. Þau horfa ekki á heildarmyndina því það getur verið kostnaðarsamt að eiga of mikið af notuðum bílum, sérstaklega þegar syrtir í álinn.
Einhver töf á lækkun notaðra
Bílaumboðum er stundum legið á hálsi fyrir að lækka ekki verð á notuðum bílum nógu hratt þegar gengi krónu styrkist og nýir bíla verða ódýrari. Sú gagnrýni á að einhverju leyti rétt á sér. Það er nefnilega ákveðin töf frá því að nýr bíll lækkar í verði þar til að notaður bíll lækkar í verði. En það fer eftir bílaumboðum hve töfin er löng. Þegar við lækkum verð á nýjum bílum breytum við verði um leið í mið- lægu kerfi bílasala sem reiknar út verð á notuðum bílum. Brimborg lækkaði verð á nýjum bílum fyrir tveimur vikum. Allt það verð er komið í kerfið. Við tekur tími sem það tekur að reikna upp bílaflotann og hengja upp ný spjöld í gluggana. Töfin hjá okkur er ekki meira en þetta. En svo eru aðrir sem eru ekki jafn snöggir til. Aðspurður hvort það að lækka verð á notuðum bílum muni ekki rýra efnahagsreikning bílaumboða segir hann svo vera. En þetta er raunveruleikinn. Það er ekkert hægt að bíða með að lækka verðið. Eftir því sem bílaumboð á bíl lengur sem er verðlagður of hátt og bókfærður er á röngu verði í efnahagsreikningi, verður höggið þyngra og erfiðara verður að takast á við vandann. Þeir sem haga sér með þeim hætti eru einfaldlega ekki að horfast í augu við raunveruleikann. Svo lengi sem tryggt er að notaðir bílar seljist nokkuð hratt og að lager af notuðum bílum vaxi ekki um of, verður eignarýrnun viðráðanleg.
Óraunhæft að flytja út notaða bíla.
Víkjum aftur að því að óvenjustór hluti af bílasölu sé til bílaleiga. Aðspurður þykir Agli ólíklegt að notaðir bílaleigubílar verði fluttir út til endursölu á erlendum mörkuðum. Ég tel það óraunhæft. Verð á notuðum bílum er frekar hátt í samanburði við helstu markaði í Evrópu og við erum í órafjarlægð frá Evrópu og því kostar umtalsvert að flytja bílana út. Þann kostnað þarf að draga frá söluverðmætinu. Þar fyrir utan aka bílaleigubílar á malarvegum sem þekkist ekki víða í Evrópu. Ef ríkið myndi veita skattaafslátt vegna útflutnings, sem mér þykir ólíklegt, þá myndi hann ekki nægja til þess að selja bílana á samkeppnishæfu verði á erlendri grundu.
Segir skynsamlegri leiðir færar en rafbílavæðingu
Egill segir að markmiðssetning stjórnvalda og leiðir að markmiðum séu oft á villigötum. Reykjavíkurborg hefur það að markmiði að banna nagladekk þegar minnkun svifryks ætti að vera markmiðið. Það þýðir að hagkvæmustu leiðirnar að markinu eru ekki valdar. Niðurstaðan er að svifryk eykst. Engu líkara er en að stefna stjórnvalda sé að fjölga rafmagnsbílum í stað þess að markmiðið sé að draga úr koltvísýringsmengun. Innleiðing rafbíla væri þá ein leið að því marki ásamt mörgum öðrum. Niðurstaðan er að koltvísýringslosun eykst þvert á loforð stjórnvalda í Parísarsamkomulaginu. Rafmagnsbílar eru undanskildir aðflutningsgjöldum. Þeir munu auðvitað verða hluti af lausninni en aðrar, fljótvirkari og ódýrari leiðir eru færar strax í dag í átt að markmiðinu sem að skili okkur meiri ávinningi fyrir sama pening, segir hann. Brimborg hefur átt í samstarfi við íslenska fyrirtækið Carbon Recycling International. Það býr til metanól sem knúið getur bíla. Metanólið er í raun fljótandi rafmagn. Það tekur koltvísýring sem kemur frá borholum í Svartsengi ásamt því að rafgreina íslenskt vatn til framleiðslu á vetni. Úr þessari blöndu verður til metanól sem er 96% endurnýjanlegt. Við fluttum inn sex Geely-bíla frá Kína sem knúnir eru 100% metanóli frá CRI. Bílarnir eru með sprengihreyfil eins og hefðbundnar bensínvélar og bílarnir eru ekki tvöfalt dýrari í innkaupum eins og rafmagnsbílar heldur jafn hagstæðir og hefðbundnir bensínbílar án niðurfellingar gjalda. Það er því hægt að leysa vandann hraðar og á fjárhagslega skynsamlegri máta en rafbílavæðingu þó að hún geti að sjálfsögðu farið fram jafnhliða. Bílarnir sex hafa verið keyrðir í 16 mánuði, meira en 100 þúsund kílómetra, og slá ekki feilpúst. Munurinn á þeim bílum og hefðbundnum bensínbílum er að leiðslur fyrir eldsneytið eru sterkari vegna þess að metanhólið myndi annars tæra þær upp. Kostirnir við að fara þessa leið eru að innviðir fyrir dreifingu á metanóli, fljótandi eldsneyti, eru til staðar. Margir vanmeta þann þátt við orkuskiptin. Ef farnar verða aðrar leiðir, til að mynda rafbílavæðingu, þarf fjárfesta ríkulega í innviðum. Til að mynda varðandi metangasið eru einungis fjórar afgreiðslustöðvar en bíleigendur vilja gjarnan betri þjónustu en það, segir hann. Fáir bílaframleiðendur hafa hins vegar farið þessa leið.
Hagnaður rúmlega tvöfaldaðist
Brimborg hagnaðist um 718 milljónir króna í fyrra en um 327 milljónir króna árið áður. Arðsemi eigin fjár nam 47% en félagið er nokkuð skuldsett. Eiginfjárhlutfallið við árslok var 22% en 14% árið áður. Ef litið er til arðsemi af eignum var ávöxtunin 9%. Við erum ánægð með hvernig til tókst með reksturinn í fyrra. Þetta var mesti hagnaður í sögu fyrirtækisins. En við erum líka stolt af því að þrjú ár í röð höfum við verið með fyrstu fyrirtækjum að birta ársreikninginn okkar opinberlega. Við stefnum að því að hann sé tilbúinn í febrúar eða byrjun mars á hverju ári, segir hann. Hann væntir þess að reksturinn í ár verði með svipuðum hætti en vegna kostnaðarhækkana muni draga úr hagnaði. Fyrirtækið byggir á sölu fimm bílamerkja: Ford og Volvo, Mazda, Citroën og Peugeot; Volvoatvinnutækja, bílaleigu og verkstæðum. Hjá fyrirtækinu starfa um 300 manns. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins jókst velta bílaleigu Brimborgar, Dollar/Thrifty, um 90%. Á sama tíma fjölgaði ferðamönnum um 54%, segir hann. Síðastliðið haust var rekstur endurskoðaður í ljósi væntinga um að gengið myndi styrkjast á næstu misserum. Lögð var áhersla á að leigja út stærri og dýrari bíla í stað minnstu bílanna. Eins var sjö og níu sæta bílum fjölgað í flotanum. Á sama tíma var smærri bílum fækkað. Það liggur sama vinna að baki þess að leigja út lítinn bíl fyrir tíu þúsund og jeppa fyrir 30 þúsund krónur. Það er mikið rætt um það í ferðamannabransanum að það eigi að afhenda verðmætari vöru og það er einmitt það sem við gerð- um og það hefur gengið eftir, segir hann. Bílafloti Dollar/Thrifty telur 1.350 bíla, þar af eru um 300 í langtímaleigu eða sendibílar. Um þúsund bílar eru í skammtímaleigu. Við tókum þá ákvörðun að fjölga ekki í flotanum í ár heldur að fjárfesta þess í stað í dýrari bílum, segir hann. Hjá bílaleigunni starfa um 60 starfsmenn, flestir árið um kring.
Spennandi tímar í vændum varðandi sjálfakandi bíla
Það eru spennandi tímar í vændum varðandi sjálfakandi bíla, segir Egill. Það er með ólíkindum hve hratt bílarnir eru að þróast um þessar mundir. Tökum sem dæmi nýja Volvo-jeppann, XC90. Með einum takka get ég hengt hann við næsta bíl og hann fylgir honum í hraða. Ég prófaði að keyra 40 kílómetra með þessum hætti úti á landi og það gekk eins og í sögu. Ef bílinn fyrir framan mann hemlar snögglega bremsar Volvo-jeppinn um leið. Þetta hefur gefið góða raun. Alþjóðlega hefur sala á boddívarahlutum dregist saman um 40% miðað við sölu á sambærilegum bíl en eldri. Tæknin leiðir því til færri slysa. Ford og Volvo hafa tilkynnt að algerlega sjálfakandi bílar verði kynntir til sögunnar árið 2021 og móðurfélag Citroën og Peugeot, sem Brimborg hefur líka umboð fyrir, segir að þeim verði rennt úr hlaði fljótlega eftir árið 2020. Hvað verður um bílasala ef bílar eru algerlega sjálfkeyrandi? Þegar sala á slíkum bílum verður komin á skrið, eftir kannski 10-15 ár, má búast við að bílaumboð eins og Brimborg verði starfrækt með allt öðrum hætti. Vægi þjónustu mun væntanlega aukast enn frekar. Það mun áfram þurfa að þjónusta bílana, sinna hugbúnaðarlausnum, gera við þá, skipta um dekk. En þetta var einmitt ein af ástæðum þess að við fórum í bílaleigubransann, því mögulega væri framtíðin í því að reka sjálfkeyrandi bílaflota fyrir aðra. Hvernig sérðu framtíðina í deilihagkerfinu þróast, þ.e. fólk leigi einvörðungu bílinn fyrir eina ferð, í raun líkt og um leigubíl væri að ræða? Samkvæmt okkar útreikningum mun slíkt ekki geta staðið undir rekstrarkostnaði í borgum þar sem íbúar eru færri en ein milljón. Vegna þess að ef hver og einn bíll yrði nýttur í minna mæli yrði kostnaðurinn við reksturinn meiri. En hafa þarf starfskraft sem athugar hvort bílinn hafi skemmst við útleigu, þrífa þá og fylla af bensíni. Ef mannfjöldinn er ekki nægur er fastur kostnaður of mikill til þess að reksturinn geti gengið.
Hlaut hæstu meðaleinkunn í MBA-náminu
Egill útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn frá upphafi í MBA-námi frá Háskóla Íslands í vor. Sömuleiðis var hann valinn sá nemandi sem aðrir lærðu hvað mest af. Ég lagði mikla vinnu í námið og þótti það skemmtilegt. Ég nýtti jafnframt verkefnin á vegum skólans til hagsbóta fyrir fyrirtækið. Til að mynda skrifaði ég lokaverkefni um nýtt fyrirtæki sem Brimborg er að setja á fót og verður opnað í Hádegismóum um áramótin. Ákveðið var koma rekstri á Volvo-atvinnutækjum í sér fyrirtæki, sem bera mun nafnið Veltir. Það er gamalkunnugt nafn, en áður en Brimborg keypti Volvo-umboðið gekk það undir því nafni. Merking nafnanna er svipuð. Volvo þýðir, ég rúlla. Forsenda þess að nýtt fyrirtæki er stofnað er að sala fólksbíla og atvinnutækja hjá Brimborg hefur farið stigvaxandi á undanförnum árum. En viðskiptavinir sem kaupa fólksbíla og þeir sem kaupa vinnuvélar eru af ólíkum toga og það þarf að nálgast þá með öðrum hætti. Þá er vinnustaðarmenningin á milli sviðanna önnur. Við teljum því rétt að aðskilja söluna með þessum hætti.